„Síðasta tímabil var bara eins og draumur," segir Sammy Smith, leikmaður Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.
Það er óhætt að segja að árið 2024 hafi verið magnað fyrir bandarísku fótboltakonuna. Hún lék sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku eftir að hafa spilað í háskólaboltanum í heimalandi sínu. Hún endaði á Íslandi, hjá FHL á Austfjörðum. Þar var hún stórkostleg og var besti leikmaður Lengjudeildarinnar þrátt fyrir að hafa ekki spilað allt mótið.
Það er óhætt að segja að árið 2024 hafi verið magnað fyrir bandarísku fótboltakonuna. Hún lék sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku eftir að hafa spilað í háskólaboltanum í heimalandi sínu. Hún endaði á Íslandi, hjá FHL á Austfjörðum. Þar var hún stórkostleg og var besti leikmaður Lengjudeildarinnar þrátt fyrir að hafa ekki spilað allt mótið.
Eftir að hún var búin að hjálpa FHL að komast upp í efstu deild, þá söðlaði hún um og gekk í raðir Breiðabliks sem var þá að berjast við Val um Íslandsmeistaratitilinn. Blikar voru að elta en þegar Sammy kom, þá breyttist býsna mikið.
„Ég gat í hreinskilni sagt ekki ímyndað mér betra fyrsta ár í atvinnumennsku. Að byrja fyrir austan með FHL hjálpaði mér að byggja upp sjálfstraust og það reyndist auðveld breyting fyrir mig að skipta í Breiðablik."
„Ég fékk líka svolítið það besta af báðum heimum hér á landi með því að búa í fjöllunum fyrir austan og flytja svo í höfuðborgina. Ég elskaði það," segir Sammy.
Það er auðvelt fyrir hana að velja sína uppáhalds minningu frá síðasta sumri. „Það var náttúrulega ótrúlegt að vinna báðar deildir. Það var mjög góð lífsreynsla því ég hafði aldrei upplifað slíkt á mínum ferli."
„Ég hitti mikið af mögnuðu fólki í báðum liðum og í kringum Ísland, og ég fékk að upplifa að búa í öðru landi; ég var umvafin í íslenskan kúltúr og lærði nýja lífshætti. Að sjá norðurljósin var líka í uppáhaldi hjá mér og líka að hoppa í sjóinn klukkan þrjú um nótt þegar það var enn bjart úti."
Ætla að taka annað ár
Stuðningsmenn Breiðabliks fengu frábærar fréttir á dögunum þegar Sammy skrifaði undir nýjan samning við félagið. Það var snemmbúin jólagjöf ef svo má segja.
Breiðablik tók 19 stig af 21 í þeim sjö leikjum sem hún spilaði á síðustu leiktíð. Samantha var valin besti leikmaður Lengjudeildarinnar og var heilt yfir besti leikmaður á Íslandi síðasta sumar.
„Það voru margir þættir sem spiluðu inn í ákvörðun mína að vera áfram á Íslandi, en fyrst og fremst leið mér bara eins og það væri rétt fyrir mig að koma og taka annað tímabil. Ég skoðaði önnur félög í Evrópu en það var eitthvað sem sagði mér að vera áfram með Breiðabliki," segir Sammy.
„Eftir síðasta tímabil, með stelpurnar sem við erum með í liðinu, þá er enginn vafi í huga mínum að við getum unnið aftur og ég vil upplifa það með þeim. Ég elskaði að spila á Íslandi síðasta sumar. Ég elska menninguna og stuðningshópurinn er magnaður. Það eru krakkar sem horfa upp til okkar og það er mjög svalt að upplifa það," segir hún.
Sammy viðurkennir að tímabilið á Íslandi hafi opnað fleiri dyr en hún vildi vera hér áfram.
„Það voru félög í Evrópu sem sýndu mér áhuga en í enda dagsins, þá var eitthvað sem sagði mér að koma til baka. Ef ég spila vel þá get ég alltaf skoðað aðra möguleika en núna vil ég bara spila fyrir Breiðablik."
Spennt að spila heilt tímabil með þeim
Sammy segist spennt að snúa aftur í Kópavoginn og er stefnan sett á að gera stóra hluti á næstu leiktíð.
„Já, ég er spennt að koma til baka. Þetta er frábær hópur af stelpum, frábært starfsfólk og stórkostlegt umhverfi. Breiðablik er eiginlega eina ástæðan fyrir því að ég vildi koma aftur til Íslands og ég er spennt að spila heilt tímabil með þeim," segir Sammy.
Blikar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og markmiðin eru skýr fyrir næsta tímabil.
„Við viljum auðvitað vinna deildina aftur," segir hún.
„Ég veit að það var fyrsti leikurinn minn með þeim, en við vorum svekktar að tapa í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Það er bikar sem við viljum taka á næstu leiktíð. Með Meistaradeildina, þar er markmiðið að fara eins langt og mögulegt er. Klárlega að komast í riðlakeppnina eftir að það mistókst á síðasta tímabili."
„Við höfum eitthvað að sanna: Að við erum besta félagið á landinu, og ég vil vera hluti af því," sagði þessi frábæra fótboltakona að lokum.
Athugasemdir