Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   mið 14. desember 2022 15:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
KA ekki fengið neitt greitt frá Beerschot sem er komið í félagaskiptabann
Gengur vel inn á vellinum hjá Beerschot og Nökkvi hefur skorað sex mörk, þar af fjögur mörk í síðustu sex leikjum.
Gengur vel inn á vellinum hjá Beerschot og Nökkvi hefur skorað sex mörk, þar af fjögur mörk í síðustu sex leikjum.
Mynd: Beerschot
Raðaði inn mörkum hjá KA.
Raðaði inn mörkum hjá KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fjallað er um það í belgískum fjölmiðlum í dag að Beerschot er komið í tímabundið félagaskiptabann. Það kemur til eftir kaup liðsins á þeim Apostolos Konstantopoulos og Nökkva Þey Þórissyni. Beerschot er í næstefstu deild í Belgíu.

Framkvæmdastjóri og gjaldkeri Beerschot voru boðaðir á fund í upphafi mánaðarins, þeir staðfestu ógreiddar greiðslur og í kjölfarið setti belgíska knattspynusambandið félagið í félagaskiptabann. Félagið hefur gefið það út að vanskil verði afgreidd í þessum mánuði og félagaskiptabanninu verði því aflétt fljótlega.

Nökkvi, sem var markakóngur Bestu deildarinnar í sumar, var keyptur frá KA í september. Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og spurði hann út í tíðindin.

„Þeir gerðu samkomulag við okkur um að gera upp fyrir 15. desember, svo virðist belgíska sambandið vera grjóthart, þetta er inn í TMS (alþjóðakerfi fyrir kaup og sölur), og það kemur upp að það sé ógreidd við okkur og liði í Grikklandi (Panetolikos). Þetta er í raun það sama og við göngum í gegnum hér heima með leyfiskerfið. Leyfisráðið virðist vera grjóthart við þá og setur þá í félagsskiptabann þangað til þeir eru búnir að gera upp við okkur og gríska liðið. Þeir hafa ekkert greitt okkur ennþá, því miður," sagði Sævar.

„Þeir áttu að greiða okkur í september, við höfum verið að ýta eftir því og þeir báðu okkur um frest til 15. des sem við samþykktu. Sambandið eða leyfisráðið er greinilega með strangt aðhald á sínum félögum og tók af skarið sem ætti að hjálpa okkur, því núna geta þeir ekki gert neitt nema gera upp við okkur. Við vorum ekki komnir á neinn svona stað í innheimtum eða slíku."

Borgaði Beerschot einhvern hluta af kaupverðinu til KA í september eða á eftir að greiða það í heild sinni?

„Í kaupsamningnum eru nokkrar greiðslur, fyrsta greiðslan átti að koma í september en það hefur ekki borist nein greiðsla vegna sölunnar á Nökkva ennþá."

„Þetta kom mér á óvart, þegar ég sá þetta áðan, hversu harðir þeir eru Belgíu. Maður hefur ekki séð þetta áður, en þetta er mjög gott. Þetta er allt skráð í sameiginlegt kerfi félaganna og sambandanna, samböndin geta fylgst með því hvort greiðslurnar hafi farið í gegn og Belgarnir greinilega gera það og taka hart á málum,"
sagði Sævar að lokum.

Nökkvi er 23 ára Dalvíkingur sem hefur byrjað alla leiki með liðinu ef frá er talinn fyrsti leikurinn eftir komu hans til Belgíu. Í leikjunum fimmtán hefur hann skorað sex mörk og lagt upp eitt. Beerschot hefur unnið sex deildarleiki í röð og er á toppi B-deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner