Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 17. janúar 2020 21:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Emil Ásmunds: Fyrst og fremst prófraun á andlegu hliðina
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: KR
Emil í leik gegn KR.
Emil í leik gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Ég hef verið betri, ég verð að viðurkenna það. Svona er þetta, maður tæklar þetta bara," sagði Emil Ásmundsson sem fékk það staðfest í dag að hann hefði slitið krossband. Fótbolti.net hafði samband við Emil, sem er leikmaður KR, og forvitnaðist fréttaritari út í næstu skref Emils.

Emil meiddist í leik KR gegn Fylki í Reykjavíkurmótinu um síðustu helgi og fór í myndatöku fyrr í vikunni og fékk niðurstöðuna í dag.

Sjá einnig:
Áfall fyrir KR - Emil sleit krossband og Finnur ristarbrotnaði

Emil meiddist á síðasta ári þegar liðband rifnaði snemma á síðasta leiktímabili. Emil kom við sögu í átta leikjum hjá Fylki á síðustu leiktíð og gekk í raðir KR eftir leiktíðina. Fyrr á ferlinum meiddist hann á hægra hnénu þegar hann var á mála hjá Brighton. Hann var frá í um eitt og hálft ár vegna þeirra meiðsla.

„Þetta er þriðji skammturinn sem maður fær af leiðindameiðslum, vonandi verða þeir ekki fleiri" sagði Emil við Fótbolta.net í kvöld.

Hvernig var fyrir Emil að fara í myndatökuna og svo að fá niðurstöðuna. Vonaðist hann eftir því besta en óttaðist það versta eða vissi hann alltaf að þetta væri krossbandið?

„Ég hef ekki slitið áður þannig ég vissi ekki hvernig það er. Öll einkenni bentu til þess samt að þetta væri krossbandið. Auðvitað vonar maður það besta en maður var strax búinn að undirbúa sig undir það versta til að takast á við þetta."

Hvað tekur við hjá Emil núna í kjölfarið. Hvenær kemst hann í aðgerð?
„Ég þarf að bíða aðeins áður en ég get farið í aðgerð. Ég þarf að ná fullri réttu á löppina og bólgan þarf að vera farin úr. Það er ekki komin nein tímasetning. Gæti verið eftir mánuð en ég er ekki alveg klár á því," sagði Emil.

„Í kjölfarið á því tekur við endurhæfing og maður þarf að sinna henni eins vel og hægt er ef maður ætlar að koma eins ferskur og hægt er út úr þessu. Öll vinnan liggur í því."

„Ég held þetta sé yfirleitt um níu mánuðir í endurhæfingu en svo getur það farið eftir einstaklingum og hvernig aðgerðin gengur og slíkt. Nokkrir hafa tekið skemmri tíma og sumir lengri."

„Það er ekkert hægt að flýta mikið fyrir endurkomunni með gífurlegum dugnaði. Þetta verður auðvitað alltaf smá helvíti en maður þarf að vinna sem mest í endurhæfingunni til að vonandi fyrirbyggja og koma sem ferskastur til baka."

„Þetta er fyrst og fremst prófraun á andlegu hliðina hvernig maður tæklar mótlætið. Stefnan er auðvitað að koma sem sterkastur til baka. Vonandi er þetta bara smá 'setback' fyrir 'major comeback',"
sagði Emil spurður út í endurhæfingarferlið.

Mikill stuðningur frá öllum í KR
Fréttaritari forvitnaðist út í það hvernig KR-ingar og aðallega Rúnar Kristinsson, þjálfari meistaraflokks, hefðu brugðist við þegar þeir fengu fregnirnar.

„Rúnari fannst þetta auðvitað mjög leiðinlegt. Maður fann það samt strax á honum og öðrum hjá félaginu að þeir væru til staðar og væru til í að gera allt fyrir mig."

„Þeir sögðu við mig að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. Þau viðbrögð hjálpuðu mér að komast í gegnum þetta. Þeir hjá KR standa mjög þétt við bakið á manni. Það voru virkilega jákvæð viðbrögð sem ég fékk bæði frá þjálfarateyminu, stjórn félagsins og liðsfélögunum."

„Frá því að það var eitthvað í hættu þá stóðu þeir eins og klettar við bakið á manni. Þó maður sé nýkominn þá fann maður strax fyrir því að maður er hluti af liðinu frá degi eitt,"
sagði Emil við Fótbolta.net að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner