Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 17. mars 2021 15:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fyrsti keppnisleikur gæti verið gegn Þýskalandi: Ótrúlega spennandi verkefni
Væri ótrúlega gaman að fá hlutverk
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór og Eiður Smári, A-landsliðsþjálfarar.
Arnar Þór og Eiður Smári, A-landsliðsþjálfarar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrst og fremst er ég klár að sýna mína styrkleika og það væri ótrúlega gaman að fá hlutverk.
Fyrst og fremst er ég klár að sýna mína styrkleika og það væri ótrúlega gaman að fá hlutverk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag var tilkynnt að Alfons Sampsted, leikmaður Bodö/Glimt, verður með A-landsiðinu í komandi verkefni þess í undankeppni fyrir HM í Katar árið 2022. Eitthvað hafði verið rætt og ritað um þann möguleika en í þessum komandi landsleikjaglugga eru einnig, eins og flestir vita, milliriðlar hjá U21-árs landsliðinu þar sem Alfons hefur verið algjör lykilmaður og getur ekki hjálpað sínu liði á vellinum í Ungverjalandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Alfons er í hópnum hjá A-landsliði í undankeppni fyrir stórmót. Hann hafði áður verið í hópnum í æfingaleikjum sem og í Þjóðadeildinni, Alfons hefur spilað tvo A-landsleiki á sínum ferli til þessa. Fótbolti.net heyrði í Alfons í dag og spurði hann út í valið og komandi verkefni.

Hvenær fékkstu að vita að þú yrðir í A-landsliðinu?

„Í gær fékk ég í rauninni að vita það fyrir víst því þá fóru þeir að spyrja mig hvernig ég vildi ferðast. Það voru búnar að vera einhverjar samræður áður en í gær varð þetta svo ljóst," sagði Alfons.

Ánægður með þetta?

„Já, þetta er ótrúlega gaman. Eins og ég sagði í viðtali [við Vísi] um daginn þá er þetta bara win-win staða, bæði hefði verið mjög gaman. Ég er ánægður og tilbúinn að láta til mín taka."

Pínu svekkjandi að þetta sé á sama tíma?

„Jú, að sjálfsögðu. Best hefði verið ef þetta hefði verið á sitthvorum tímanum og maður hefði getað verið á báðum stöðum. Stundum er þetta bara svona að hlutirnir skarast á og þá verða landsliðsþjálfararnir að meta hvoru megin er best að hafa mig."

Væntanlega, fyrst þú ert ekki í U21 hópnum, verður þú í einhverju hlutverki og færð einhverjar mínútur. Er búið að tala eitthvað við þig um það?

„Nei, það er ekki beint búið að tala um það. Það getur enginn þjálfari lofað mínútum. Ég fer inn í þetta verkefni með það hugarfar að ég ætli að hjálpa liðinu á þann hátt sem það þarf á mér að halda. Ég er klár að vera inn á vellinum og klár að vera hluti af hópnum. Fyrst og fremst er ég klár að sýna mína styrkleika og það væri ótrúlega gaman að fá hlutverk. Ég verð að vera klár ef þjálfarnarnir vilja nota mig."

Þegar leikirnir eru búnir og þjálfarnir eru búnir að koma sínu frá sér er þá fyrsta mál á dagskrá að skoða hvernig U21 er að gera í sínu verkefni?

„Já, ég hugsa það. Við verðum að halda einbeitingu á okkar leik eins lengi og hægt er. Um leið og maður hefur efni á að sleppa þeirri einbeitingu þá kíkir maður á úrslitin hjá U21."

Hvernig líst þér á að fara mæta Þýskalandi?

„Þetta er bara spennandi, er ekki alltaf skemmtilegast að taka stóru leikina fyrst? Það er alltaf markmiðið að ná í úrslit gegn Þjóðverjunum, við erum ekki að mæta bara til að vera með, við erum að mæta til að ná í stig. Mér finnst það verkefni ótrúlega spennandi," sagði Alfons.

Nánar var rætt við Alfons um U21 árs liðið og birtist það á Fótbolti.net í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner