Arsenal og Man Utd berjast um Sane - Zubimendi til Arsenal? - Murillo orðaður við risa félög - Liverpool vill fá Pepi
   fös 17. maí 2024 15:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ekki draumastaða í dag miðað við hvernig hún er að spila í deildinni"
Icelandair
Sandra María með dóttur sinni.
Sandra María með dóttur sinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sædís er meidd.
Sædís er meidd.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda er hægt og rólega að koma sér í gang eftir höfuðmeiðsli.
Áslaug Munda er hægt og rólega að koma sér í gang eftir höfuðmeiðsli.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það er aðeins einn bakvörður í landsliðshópi Íslands fyrir leikina gegn Austurríki í undankeppni Evrópumótsins núna í lok maí og byrjun júní. Sædís Rún Heiðarsdóttir er meidd.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður út í bakvarðarstöðurnar á fréttamannafundi í dag. Í síðustu leikjum hefur Guðrún Arnardóttir verið að leysa það að spila hægri bakvörð en vinstri bakvörðurinn Sædís Rún Heiðarsdóttir verður ekki með að þessu sinni vegna meiðsla.

„Guðný (Árnadóttir) spilar sem bakvörður og hefur gert það lengi. Hún er búin að spila meira sem bakvörður á Ítalíu og núna í Kristianstad líka. Hún er bakvörður," sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í Laugardalnum í dag.

„En auðvitað er Sædís meidd og (Áslaug) Munda er rétt að koma sér í gang. Við erum í meiri vandræðum vinstra megin en hægra megin. Það er hausverkur sem þarf að leysa. Ég hef engar áhyggjur af því en það er missir af Sædísi. Vonandi verður hún klár í næsta verkefni og verður klár í slaginn í þeim leikjum."

Landsliðsþjálfarinn var svo spurður að því hvernig hann myndi leysa fjarveru Sædísar.

„Það kemur bara í ljós raunverulega. Auðvitað erum við með leikmenn sem geta leyst þetta verkefni. Ég hef notað Söndru Maríu (Jessen) í vinstri bakverði en það er ekki draumastaða akkúrat í dag miðað við það hvernig hún er að spila í deildinni," sagði Steini en Sandra María er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar með níu mörk. Hún hefur byrjað mótið ótrúlega vel en hún spilar sem sóknarmaður hjá Þór/KA. Það væri betra að spila henni framar í landsliðinu.

„Þetta er hausverkur minn að leysa. Það er held ég engin örvfætt í hópnum og ekki mikið um örvfætta leikmenn sem spila á þessu getustigi. Anna Rakel (Pétursdóttir) er að koma sér í gang hjá Val en annars eru ekki margar örvfættar sem við getum leitað í."

Því var velt upp hér á síðunni á dögunum hvort Barbára Sól Gísladóttir yrði í hópnum en hún hefur spilað mjög vel með Breiðabliki eftir félagaskipti sín þangað frá Selfossi í vetur. Hún er sóknarsinnaður hægri bakvörður. Hún var í viðtali hér á Fótbolta.net í vikunni þar sem hún sagði það alltaf í huga sér að snúa aftur í landsliðið, en hún er ekki með hópnum að þessu sinni. Barbára lék síðast með A-landsliðinu 2020.
Athugasemdir
banner
banner