Það styttist í það að landsliðshópur verði tilkynntur fyrir afar mikilvægt verkefni gegn Austurríki í undankeppni fyrir Evrópumót kvenna 2025.
Ísland er með þrjú stig í riðlinum eftir sigur gegn Póllandi og tap gegn Þýskalandi. Með því að ná í góð úrslit í báðum leikjunum sem eru framundan gegn Austurríki, þá getur Ísland komist langleiðina á Evrópumótið.
Ísland er með þrjú stig í riðlinum eftir sigur gegn Póllandi og tap gegn Þýskalandi. Með því að ná í góð úrslit í báðum leikjunum sem eru framundan gegn Austurríki, þá getur Ísland komist langleiðina á Evrópumótið.
Það er áhugavert að skoða stöðuna áður en hópurinn tilkynntur og það eru eflaust ákveðnir leikmenn sem eru að gefa Þorsteini Halldórssyni, landsliðsþjálfara, góðan hausverk.
Hérna eru fimm leikmenn sem hafa ekki verið í hóp í síðustu þremur verkefnum að minnsta kosti en gera tilkall núna. Listinn er bara í handahófskenndri röð.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir (Breiðablik)
Hefur skorað í hverjum einasta leik í Bestu deildinni til þessa og er að finna sig gríðarlega vel í framlínu Breiðabliks. Hefur leyst ýmsar stöður á undanförnum árum, þar á meðal bakvörð, en er núna að spila sína uppáhalds stöðu fremst á vellinum. Virkilega hæfileikaríkur leikmaður og gæti meðal annars komið inn fyrir Bryndísi Örnu Níelsdóttur sem er að glíma við meiðsli í aðdraganda verkefnisins.
Katla Tryggvadóttir (Kristianstad)
Ótrúlega efnilegur leikmaður sem er að fara afskaplega vel af stað í nýju umhverfi í sænsku úrvalsdeildinni. Katla er leikmaður sem getur leyst nánast allar stöður fremst á vellinum og gert það vel. Ekki langt í það að hún verði ein af aðalleikmönnunum í þessu landsliði okkar og verður gaman að sjá hvort hún fái sitt fyrsta tækifæri núna. Hefur skorað fjögur mörk í fimm leikjum með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni til þessa.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir (Bayern München)
Cecilía er mætt aftur til æfinga hjá þýska félaginu Bayern München eftir erfið meiðsli Endurhæfingaferlið hefur verið langt og strangt en það eru frábær tíðindi að Cecilía sé að koma til baka. Hún getur vonandi komið inn sem þriðji markvörður í komandi verkefni og aftur verið hluti af hópnum.
Barbára Sól Gísladóttir (Breiðablik)
Eftir erfitt sumar á Selfossi í fyrra, þá hefur Barbára byrjað vel í Breiðabliki í sumar. Þurfti ferskt upphaf og það hefur hjálpað henni. Verið hluti af sterku varnarliði Blika og einnig lagt sitt af mörkum sóknarlega. Það er orðið frekar langt síðan hún var í landsliðinu og spurning hvort það sé kominn tími á endurkomu. Getur eflaust líka leyst það að spila vinstra megin í bakverðinum sem hjálpar.
Sigdís Eva Bárðardóttir (Víkingur R.)
Kannski smá óvænt, en Sigdís er einn efnilegasti leikmaður sem við Íslendingar eigum. Er bara 17 ára gömul og er að spila sitt fyrsta tímabil í Bestu deildinni en hún hefur sýnt það í upphafi tímabils að hún getur vel höndlað það stökk. Er búin að vera besti leikmaður Víkings í upphafi tímabilsins og bara einn besti leikmaður Bestu deildarinnar. Kantmaður með rosalega mikil gæði og á hún vonandi eftir að fara mjög langt á sínum ferli.
Útileikurinn gegn Austurríki er þann 31. maí og heimaleikurinn verður spilaður 4. júní.
Athugasemdir