Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
banner
   fös 17. maí 2024 14:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Var bara tímaspursmál hvenær hún yrði kölluð inn í hópinn
Icelandair
Katla Tryggvadóttir er afar spennandi leikmaður.
Katla Tryggvadóttir er afar spennandi leikmaður.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Katla hefur byrjað vel í atvinnumennsku.
Katla hefur byrjað vel í atvinnumennsku.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Ég er að kalla inn leikmenn sem verður áhugavert að sjá í treyjunni," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag þegar hann tilkynnti hóp sinn fyrir tvo mikilvæga leiki gegn Austurríki í undankeppni Evrópumótsins.

Það eru tveir nýliðar í hópnum en það eru Katla Tryggvadóttir og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir. Þær hafa ekki verið í hópnum áður og verður spennandi að sjá þær í A-landsliðinu.

Þær eru báðar fæddar árið 2005 og eru mjög svo efnilegar. Emilía er markahæsti leikmaðurinn í dönsku úrvalsdeildinni en hún hefur gert tíu mörk fyrir topplið Nordsjælland. Katla er þá á meðal markahæstu leikmanna sænsku úrvalsdeildarinnar en hún hefur gert fjögur mörk í fyrstu sex deildarleikjum sínum með Kristianstad.

Það var bara tímaspursmál hvenær Katla yrði kölluð inn í hópinn en hún hefur sýnt það á síðustu árum hversu ótrúlega hæfileikaríkur leikmaður hún er. Hún er uppalin í Val en fór yfir í Þrótt fyrir sumarið 2022 til að fá að spila. Þar blómstraði hún og er Katla núna að gera það gott í atvinnumennsku.

„Ég vissi að hún væri góð en hún er búin að koma mér á óvart innan sem utan vallar. Hún er mjög skemmtileg og ég er rosalega ánægð að við séum með hana. Ég held að hún geti gert mjög góða hluti fyrir okkar lið," sagði Hlín Eiríksdóttir, liðsfélagi Kötlu hjá Kristianstad, við Fótbolta.net í febrúar síðastliðnum.

„Hún er ótrúlega skemmtileg týpa og ég er stór aðdáandi hugarfarsins sem hún er með. Það er mjög skemmtilegt að vinna með henni á hverjum degi."

Katla var sjálf í viðtali hér á Fótbolta.net þegar hún skipti yfir í Kristianstad og var hún þá spurð út í stóra drauminn sinn. „Ég ætla að spila með bestu liðum í Evrópu," sagði Katla þá en hún hefur svo sannarlega hæfileikana í það.

Katla er leikmaður sem getur leyst nánast allar stöður fremst á vellinum og gert það vel. Núna tekur hún næsta skref á ferlinum með því að fara inn í sitt fyrsta verkefni með A-landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner