
Það hefur myndast mikil umræða um KR í dag eftir að leikmenn og þjálfarar kvennaliðs félagsins tóku upp á því að gagnrýna umgjörð í kringum liðið eftir leik liðsins gegn Selfossi í Bestu deildinni í gær, sunnudag.
KR, sem á að vera stórveldi í íslenskum fótbolta, féll úr Bestu deildinni í gær eftir stutt stopp í efstu deild. Umgjörðin í kringum liðið hefur verið gagnrýnd mjög í dag og í gær.
„Kvennafótbolti skiptir engu máli í KR," sagði Christopher Harrington, þjálfari KR, á meðan leik stóð í gær en það heyrðist vel á upptöku.
Páll Kristjánsson, formaður KR, svaraði fyrir þessa umræðu í samtali við 433.is í dag.
„Það er aldrei gott þegar menn geta ekki rætt málin innbyrðis. Það er búið að benda á hitt og þetta og menn reynt að bæta það. En ég held að það sé aðallega vonbrigði hjá öllum aðilum að falla. Það er búið að leggja mikið í þetta lið og árangurinn bara ekki nægilega góður. Það endurspeglast að einhverju leyti í pirrings-viðtali vegna árangursins," sagði Páll við 433 í dag.
Það var tekin mikil umræða um þetta í Bestu deildar mörkunum í kvöld. Helena Ólafsdóttir, sem er KR-ingur, segir þetta miður fyrir sitt gamla félag. Lilja Dögg Valþórsdóttir, sem er einnig KR-ingur, segir þetta mjög sárt. Hún segir þessa umræðu um umgjörð í kringum kvennaliðið hafa verið í gangi í mjög langan tíma. Þær ræddu um það að mælirinn væri bara orðinn fullur núna.
„Í allri þessari umræðu í kringum KR finnst mér óþarflega oft verið að beina spjótum annað en þangað þar sem ábyrgðin liggur," sagði fyrrum landsliðskonan Harpa Þorsteinsson.
„Ég held að það þurfi að vera hugarfarsbreyting í Vesturbænum. Ég hef fylgst með þessu starfi lengi. Mér finnst leiðinlegt að finnast þetta en mér finnst stundum eins og kvennaboltinn sé bara fyrir. Ákveðið ykkur hvort þið ætlið að vera með þetta (kvennalið) eða ekki," sagði Helena.
„Maður hefur heyrt um að það falli æfingar niður því það vanti lykla að húsinu. Ég spyr mig aðeins um stjórnarhættina. Framkvæmdastjórinn er aðstoðarþjálfari í meistaraflokki karla, yfirmaður yngri flokka er aðstoðarþjálfari í meistaraflokki karla, íþróttastjórinn er fyrirliði í karlaliðinu. Þegar þeir voru í Evrópukeppni þá komst kvennaliðið ekki á æfingu því þessir menn voru í burtu og húsvörðurinn í sumarfríi. Hvað er í gangi?" spurði Helena jafnframt.
„Þjálfarar meistaraflokks kvenna fá ekki lykil og þeir gátu ekki verið með æfingu."
Lilja starfar fyrir Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna. Hún sagði í þættinum að mál tengd liði KR hefðu komið oft á tíðum upp hjá samtökunum í sumar. „Ég get alveg staðfest það að KR hefur komið oft upp á borð þarna á þessu tímabili," sagði Lilja.
Þetta er svo sannarlega ekki skemmtileg umræða fyrir KR-inga, en leikmenn og þjálfarar eru greinilega ósátt við það hvernig hefur verið staðið að málum á Meistaravöllum.
Sjá einnig:
Leikmaður KR gagnrýnir formanninn: Betra að mæta á leiki
Athugasemdir