KSÍ boðaði til fréttamannafundar í dag þar sem kynnt voru áform um nýjan Laugardalsvöll. Þar var farið yfir viðskiptaáætlun og forhönnun á fyrirhugðum velli.
Í forvinnu KSÍ er gert ráð fyrir að reisa þurfi þrjár stúkur á hliðar núverandi Laugardalsvallar en aðalstúkan á að halda sér að mestu leyti.
Auk þess er gert ráð fyrir færanlegu þaki yfir vellinum en með þeim hætti að loka honum alveg væri hægt að spila landsleiki hér heima í mars og nóvember ár hvert eins og krafa verður um á næstu árum. Auk þess gæti völlurinn nýst sem tónleika- og ráðstefnuhús og gæti hýst stærri handbolta- og körfuboltaleiki.
Hlaupabrautin yrði fjarlægð, völlurinn færður 12 metra til hliðar og svo byggt þak yfir alla enda svo vellinum væri nánast lokað. Með því að fjarlægja hlaupabrautina yrði umfang vallarins á svæðinu í Laugardalnum ekki meira en það er í dag.
Áætlaður kostnaður við framkvæmdir á nýjum leikvangi er 5 milljarðar króna án þaks en rúmlega 8 milljarðar ef bætt er við hreyfanlegu þaki.
Treysta verður á framlög frá íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg til að framkvæmdin nái fram að ganga en. Bent er á að með jöfnu framlagi Reykjavíkurborgar og ríkisins þá losni borgin undan því að greiða árlega til vallarins eins og hún hefur gert í áratugi en sú upphæð er í dag 65 milljónir árlega.
Þá er einnig bent á að afleiddar tekjur fyrir þjóðarbúið vegna aukinnar freðamennsku með tilkomu vallarins geti numið 2,8 milljörðum króna og það eru helstu rök KSÍ fyrir því að fá ríkið með í framkvæmdina.
Guðni Bergsson formaður KSÍ sagði á fréttamannafundinum í dag að Borgarráð og ríkisstjórnin hafa tekið málið fyrir og hafa áhuga á að taka málið lengra. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sátu fundinn í dag. Kom fram í máli þeirra að bæði ríki og borg hafi samþykkt í morgun að skipta starfshóp til að taka þessa hugmynd enn lengra.
Athugasemdir