Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 20. júlí 2019 02:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liverpool þurfti að sætta sig við tap gegn Dortmund
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, og fyrrum stjóri Borussia Dortmund.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, og fyrrum stjóri Borussia Dortmund.
Mynd: Getty Images
Divock Origi með boltann. Mats Hummels eltir.
Divock Origi með boltann. Mats Hummels eltir.
Mynd: Getty Images
Liverpool hafði unnið æfingaleiki gegn Bradford og Tranmere fyrir leikinn í kvöld.
Liverpool hafði unnið æfingaleiki gegn Bradford og Tranmere fyrir leikinn í kvöld.
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 3 Dortmund
0-1 Paco Alcacer ('3)
1-1 Harry Wilson ('35)
1-2 Thomas Delaney ('53)
1-3 Jacob Bruun Larsen ('58)
2-3 Rhian Brewster ('75, víti)

Liverpool laut í lægra haldi gegn Dortmund frá Þýskalandi í æfingaleik sem var að ljúka. Leikurinn var spilaður í Notre Dame í Indiana í Bandaríkjunum.

Evrópumeistararnir fóru ekki vel af stað því Spánverjinn Paco Alcacer kom Dortmund yfir eftir aðeins þrjár mínútur. Varnarleikurinn hjá Liverpool var ekki nægilega góður í markinu.

Liverpool jafnaði metin á 35. mínútu og var Harry Wilson þar að verki. Wilson, sem var í láni hjá Derby á síðustu leiktíð, skoraði eftir sendingu Fabinho. Staðan var 1-1 í hálfleik í Notre Dame.

Hinn 18 ára gamli Yaser Larouci í vinstri bakverði Liverpool hreif fjölmiðlamanninn James Pearce með frammistöðu sinni. Að sögn Pearce gerði Larouci vel í baráttu sinni gegn enska landsliðsmanninum Jadon Sancho í liði Dortmund.


Dortmund byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst fljótlega í 3-1. Thomas Delaney skoraði fyrst og síðan gerði landi hans, Jacob Bruun Larsen, þriðja markið.

Rhian Brewster kom inn á sem varamaður og minnkaði muninn úr vítaspyrnu þegar stundarfjórðungur var eftir. Lengra komst Liverpool hins vegar ekki og niðurstaðan 3-2 sigur Dortmund. Fyrsta tap Liverpool á undirbúningstímabilinu, en fyrir leikinn í kvöld hafði Liverpool unnið gegn Tranmere og Bradford.

Næsti æfingaleikur Liverpool er gegn Sevilla á morgun, sunnudag.

Byrjunarlið Liverpool: Mignolet, Clyne, Matip, Gomez, Larouci, Oxlade-Chamberlain, Fabinho, Milner, Wilson, Origi, Kent.

Komu inn á sem varamenn eftir klukkutíma: Alexander-Arnold, Henderson, Lovren, Robertson, Wijnaldum, Van Dijk, Curtis Jones, Woodburn, Adam Lewis, Brewster.



Athugasemdir
banner
banner