Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 21. mars 2020 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Merson: Aubameyang er leikmaðurinn sem Man Utd vantar
Mynd: Getty Images
Paul Merson, knattspyrnufræðingur hjá Sky Sports, telur Pierre-Emerick Aubameyang vera leikmanninn sem vantar í leikmannahóp Manchester United.

Ole Gunnar Solskjær hefur verið að byggja upp sterkt lið þar sem portúgalski miðjumaðurinn Bruno Fernandes hefur byrjað af krafti. Þá hafa Aaron Wan-Bissaka og Harry Maguire einnig staðið sig vel og áhugavert að fylgjast með hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir Rauðu djöflana.

„Aubameyang er leikmaðurinn sem vantar í Manchester United. Hann er fæddur markaskorari og gæti komið Man Utd á næsta gæðastig. Þá vantar bara leikmann eins og Jack Grealish til að fullkomna hópinn," sagði Merson.

Marcus Rashford hefur verið aðalmaðurinn í sóknarleik Man Utd en hann er meiddur og spilaði gegnum stóran hluta tímabilsins með verki í bakinu. Rashford er efnilegur og afar fjölhæfur þar sem hann getur einnig leikið úti á köntunum, rétt eins og Anthony Martial.

Aubameyang er einnig fjölhæfur og væri fróðlegt að sjá hvernig tengingu hann gæti myndað með ungstirnum Man Utd.

„Liðinu vantar mann sem getur skorað 20-25 mörk á tímabili og það er nákvæmlega það sem Aubameyang býður uppá. Hann skorar 25 mörk á deildartímabili án þess að svitna. Þá vantar bara Grealish til að spila með Bruno Fernandes og þetta er orðið afar ógnvekjandi lið."
Athugasemdir
banner