Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 21. júní 2022 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Chelsea og Inter komust að samkomulagi varðandi Lukaku
Mynd: Getty Images

Sky Sport á Ítalíu greinir frá því að Inter og Chelsea séu búin að komast að samkomulagi um verð fyrir lánssamning Romelu Lukaku.


Inter er við það að tryggja sér Lukaku á eins árs lánssamningi án kaupmöguleika. Þessi belgíski landsliðsmaður skoraði 64 mörk í 95 leikjum með Inter og var þeirra besti leikmaður en hefur átt erfitt uppdráttar í enska boltanum þar sem hann skoraði 8 mörk í 26 leikjum með Chelsea eftir að hafa verið keyptur á metfé.

Chelsea borgaði rúmlega 100 milljónir evra til að fá Lukaku frá Inter í fyrra og ljóst er að ítalska félagið hefur ekki efni á því að kaupa sóknarmanninn til baka.

Inter borgar 8 milljónir evra fyrir lánssamninginn en þar að auki eru árangurstengdar aukagreiðslur ef Inter vinnur mikilvægan titil. Þær greiðslur ættu ekki að fara yfir 5 milljónir.

Lukaku hefur sjálfur sagst sjá eftir félagaskiptunum til Chelsea. Honum hafi liðið vel hjá Inter og nú mun hann taka verulega launalækkun á sig til að spila aftur fyrir félagið.

Samkvæmt öðrum fjölmiðlum á Ítalíu fer Lukaku í læknisskoðun á föstudaginn og verður kynntur um helgina.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner