Guehi vill fara til Liverpool - Viðræður við Gordon ganga illa - Man Utd skoðar stjóra
banner
   fös 21. júní 2024 14:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Finnst miður sú umræða að ungir leikmenn í Fjölni séu að spila af nauðsyn"
Lengjudeildin
Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis.
Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnismenn hafa verið að spila vel í sumar.
Fjölnismenn hafa verið að spila vel í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Lífið er aðeins betra eftir sigurleiki. Þetta snýst um að vinna næsta leik og vera með sigurtilfinningu í líkamanum. Til þess er maður í þessu, maður er háður sigurtilfinningunni. Ef maður nær henni ekki, þá vill maður ná henni næst," sagði Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, við Fótbolta.net eftir óvænt tap gegn ÍR í Lengjudeildinni í gær.

Um var að ræða fyrsta tap Fjölnis í Lengjudeildinni í sumar en liðið hefur komið nokkuð á óvart. Fyrir tímabil var Fjölnismönnum spáð um miðja deild en þeir eru í öðru sæti sem stendur.

„Við erum ekki vanir að tapa en það kemur fyrir öll lið. Við vorum ekki farnir að sjá fyrir okkur að vera Arsenal 2003/04, eitthvað 'invincibles' dæmi. Maður veit alveg að það er sjaldgæft að lið fari taplaus í gegnum tímabil. Sigur, tap eða jafntefli. Núna er það bara næsti leikur."

„Ég viðurkenni að spáin kom okkur á óvart. Mér fannst okkur spáð svolítið neðarlega, en mér er sama. Við höfðum mikla trú á þessum hóp. Strákarnir vissu alveg að þegar við myndum fá hlutina til að smella og fínstilla það sem við þurftum að fínstilla, þá yrðum við öflugir. Það kemur okkur ekkert á óvart að við séum að standa okkur vel."

Fjölnismenn eru að spila mest á uppöldum leikmönnum.

„Mér finnst miður sú umræða að ungir leikmenn í Fjölni séu að spila af nauðsyn því það er verið að teikna upp einhverja slæma fjárhagsstöðu. Ef við værum með fullar kistur af gulli, þá væri liðið nákvæmlega eins. Þessir strákar eru að spila af því þeir eiga það skilið. Ekki vegna þess að það er einhver fjárskortur."

„Ég er mjög ánægður með strákana," sagði Úlfur en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Úlfur: Leikmenn nafngreindir og þeir kallaðir aumingjar og annað
Athugasemdir
banner
banner
banner