Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 21. nóvember 2024 22:25
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Segir vonbrigði að Óli Valur velji Breiðablik og fullyrðir að hann sé sá dýrasti í sögunni
Átti gott tímabil með Stjörnunni en heldur nú í Kópavoginn.
Átti gott tímabil með Stjörnunni en heldur nú í Kópavoginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Sirius.
Í leik með Sirius.
Mynd: Guðmundur Svansson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og fram kom í dag er Óli Valur Ómarsson að ganga í raðir Breiðabliks sem kaupir hann frá Sirius í Svíþjóð.

Óli Valur lék með yngri flokkum Álftaness og Stjörnunnar og hefur til þessa einungis leikið með Stjörnunni á sínum ferli. Hann var keyptur til Sirius sumarið 2022 en náði ekki að festa sig í sessi í Svíþjóð og kom á láni til Stjörnunnar fyrir tímabilið 2024. Hann er samningsbundinn Sirius til 2027 en Breiðablik er að kaupa hann í sínar raðir.

Fótbolti.net ræddi við Helga Hrannarr Jónsson, formann meistaraflokks ráðs karla hjá Stjörnunni, í kjölfar tíðindanna.

Nú lítur út fyrir að ykkar lið verði fyrir mikilli blóðtöku við að missa Óla Val, reynduð þið ekki að fá hann?

„Ef við byrjum á byrjuninni þá er það svo að Óli lenti í brasi í Svíþjóð og fékk lítið að spila og óskaði eftir því fyrir tímabilið að koma heim. Við fengum hann að láni og eftir brösótta byrjun hjá okkur komst hann í gang og stóð sig mjög vel, enda í umhverfi sem hefur alla tíð haldið þétt utan um hann."

„Í framhaldinu vildi hann kanna möguleika sína erlendis sem voru hins vegar ekki til staðar og þá var leitað til fjölmargra íslenskra félaga. Þar fengum við ásamt nokkrum öðrum félögum samþykkt tilboð og gengum til viðræðna við leikmanninn og nýjan umboðsmann hans sem síðan leiddi til þess að Óli valdi Breiðablik þar sem það var fjárhagslega besta tilboðið að hans mati."


Fullyrðir þú að hann velji Breiðablik þar sem það var fjárhagslega besta tilboðið að hans mati?

„Já."

Þannig að þið voruð með samþykkt tilboð?

„Já, eins og fleiri íslensk félög."

Var kaupverðið hátt?

„Óli er, þegar allt er talið, dýrasti leikmaður sem íslenskt félag kaupir, þori ég að fullyrða og verðið hærra en erlend félög voru tilbúin að greiða."

Eru það vonbrigði að hann skyldi velja Breiðablik?

„Já, auðvitað ekki síst þar sem félagið og þeir sem þar starfa hafa reynst Óla ákaflega vel. En út frá þeim sjónarmiðum að Breiðablik þarf nauðsynlega að yngja liðið sitt þá skilur maður þá vel, enda eru þeir greinilegar tilbúnir að fjárfesta áður óséðum upphæðum og meta sína stöðu þannig að þeirra ungu menn séu ekki tilbúnir og því eru þeir að sækja Óla og einhverja fleiri leikmenn."

Verður erfitt að fylla hans skarð?

„Það verður að koma í ljós, hópurinn okkar er sterkur en Óli er leikmaður sem við seldum erlendis þar sem hann vildi elta drauminn um atvinnumennsku og var svo lánsmaður hjá okkur á síðasta tímabili. Við höfum selt tíu leikmenn erlendis á undanförnum árum og það kemur maður í manns stað, nú eins og áður, enda er liðsheildin öflug og Stjörnuhjartað sterkt. Við munum mæta tvíefldir til leiks og óskum Óla góðs gengis verði þetta niðurstaðan," segir Helgi Hrannarr.
Athugasemdir
banner
banner