sun 22. maí 2022 22:30
Brynjar Ingi Erluson
Tchouaméni velur Real Madrid fram yfir Liverpool
Aurelien Tchouaméni
Aurelien Tchouaméni
Mynd: Getty Images
Franski miðjumaðurinn Aurelien Tchouaméni hefur ákveðið að ganga í raðir Real Madrid frá Mónakó. Paul Gorst hjá Liverpool Echo greinir frá.

Tchouaméni er 22 ára gamall og með afar fjölbreyttan leikstíl en hann er frábær í bæði vörn og sókn.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur fylgst með honum í einhvern tíma og vildi ólmur fá hann til félagsins í sumar en hann vissi þó að annað lið væri í myndinni.

Real Madrid hefur verið að skoða markaðinn og vill yngja upp svona í ljósi þess að Toni Kroos og Luka Modric eru að færast á efri árin í boltanum.

Umboðsmaður Tchouaméni hefur nú tjáð Liverpool að leikmaðurinn ætli til Spánar en þetta segir Gorst á Liverpool Echo í dag. Það kom fram í Mirror fyrr í dag að hann væri búinn að ná samkomulagi við bæði lið en myndi greina frá ákvörðun sinni á næstu vikum. Hann mun velja Real Madrid samkvæmt heimildum Echo.

Real Madrid missti af Kylian Mbappe, framherja Paris Saint-Germain, en hann ákvað að framlengja við franska félagið. Ef hann hefði ákveðið að fara til Madrídinga þá væri ekki mikið eftir af launaþakinu til að koma Tchouaméni fyrir.

Nú eru Madrídingar með svigrúm og verður Tchouaméni fyrstu kaup félagsins í sumar á meðan Liverpool heldur áfram að leita að sterkum miðjumanni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner