Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
banner
   sun 23. júní 2024 13:35
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Blikar geta farið á toppinn - Breytingar frá meistaratímabilinu
Halldór Árnason hefur farið í smá áherslubreytingar á leikstíl Blika.
Halldór Árnason hefur farið í smá áherslubreytingar á leikstíl Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Undir stjórn Óskars pressuðu Blikar mjög stíft.
Undir stjórn Óskars pressuðu Blikar mjög stíft.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ertu ekki örugglega á þínum stað Ísak?
Ertu ekki örugglega á þínum stað Ísak?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Toppsætið í boði í kvöld.
Toppsætið í boði í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með sigri gegn ÍA í kvöld fer Breiðablik á topp Bestu deildarinnar. Í tilefni af því er um að gera að skoða breytingar á liðinu eftir þjálfarabreytingarnar og frá tímabilinu 2022.

Breiðablik varð Íslandsmeistari í annað skiptið í sögunni árið 2022. Það gerði liðið eftir að hafa misst af titlinum árið áður eftir mikla dramatík.

Það eru ekki svo margar breytingar á sterkasta liði Breiðabliks núna tveimur árum síðar. Gísli Eyjólfsson er horfinn á braut, fór til Svíþjóðar í atvinnumennsku, Dagur Dan Þórhallsson var keyptur til Orlando og Davíð Ingvarsson hélt til Koldng í atvinnumennsku.

Áherslubreytingar
Það varð þjálfarabreyting síðasta haust þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson var látinn fara og aðstoðarmaður hans, Halldór Árnason, var ráðinn í hans stað.

Eftir fyrstu ellefu leikina í deildinni tímabilið 2022 var liðið með 28 stig, í ár er liðið með 25 stig eftir ellefu leiki. 2022 hafði liðið því misst af fimm stigum samanborið við átta stig í ár. Stigin í ár hafa tapast gegn Víkingi, eitt stig af sex mögulegum fengin þar, og Valsarar sóttu þrjú stig á Kópavogsvöll fyrr í sumar.

í ár skorar liðið 0,08 mörkum færra í leik en xG (vænt mörk) er 0,24 hærra að meðaltali leik. Skotin að marki andstæðingana eru fleiri, sendingar fram á við eru fleiri og sendingar til baka eru færri - liðið er beinskeyttara. Langar sendingar liðsins eru færri og liðið reynir fleiri fyrirgjafir og fær fleiri hornspyrnur en tímabilið 2022.

Leikstíllinn árið 2022 einkenndist talsvert af löngum sendingum frá Damir Muminovic hægra megin í vörn Breiðabliks út til vinstri á Ísak sem svo tengdi við liðsfélaga sína eða bjó til eitthvað sjálfur. Þrátt fyrir að heilt yfir hafi Blikar fækkað löngum sendingum þá hefur Damir hækkað meðaltalið sitt í löngum sendingum um tæpar tvær sendingar að meðaltali í leik.

Pressa Breiðabliks hefur líka breyst, hún er öðruvísi uppsett. Andstæðingar Blika voru í fyrra (2023) að meðaltali með 6,91 sendingu sín á milli (PPDA, passes per defensive action) áður en Blikar fengu aftur boltann. Það er á við Leeds upp á sitt besta undir stjórn Marcelo Bielsa. Tímabilið 2022 náðu andstæðingar Blika 7,69 sendingum að meðaltali sín á milli.

Það getur verið frábært að pressa stíft og auðvitað gott að vinna boltann fljótt aftur, en mikilli pressu fylgir mikil áhætta; ef andstæðingurinn leysir pressuna getur öryggisnetið á bakvið verið ansi takmarkað. Breiðablik fékk á sig 88 mörk í fyrra og vildu menn skiljanlega laga til í varnarleik liðsins.

Í ár ná andstæðingar Blika að meðaltali tveimur fleiri sendingum sín á milli en tímabilið 2022 og um þremur sendingum meira að meðaltali en á tímabilinu í fyrra.

Eftir ellefu umferðir í fyrra voru Blikar búnir að fá á sig 15 mörk og fengu alls á sig 49 mörk í deildinni í 27 leikjum. Í ár hefur liðið fengið á sig 13 mörk í fyrstu ellefu leikjunum sem er einu marki meira en liðið fékk á sig í fyrstu ellefu leikjunum tímabilið 2022.

Orðnir úrslitamiðaðri
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var spurður út í breytinguna á liði Breiðabliks í viðtali fyrr á þessu tímabili. „Mér finnst Blikaliðið breytt, finnst það vera að þróast á svipaðan hátt og Víkingsliðið hefur þróast allan tímann undir stjórn Arnars (Gunnlaugssonar). Mér finnst þeir vera fjölbreyttari og einhvern veginn úrslitamiðaðri, ekki jafn frammistöðumiðaðir og þeir voru. Þeir eru líklegir til að breyta til, til þess að sækja úrslit. Það er þróun sem við höfum séð frá Víkingsliðinu. Mér finnst eins og Blikaliðið sé að þróast í sömu átt, þó að það sé margt mjög svipað í þeirra nálgun og það var undir stjórn Óskars. Mér finnst Dóri vera tilbúnari að breyta meira til, bæði á milli leikja og í leikjum," sagði Ómar.

Damir Muminovic tjáði sig einnig um breyttan leikstíl. „Við erum búnir að leggja meiri áherslu á varnarleikinn, bæði við sem erum aftast og þeir sem eru þar fyrir framan, meiri áhersla lögð á að verja markið okkar. Það hefur kannski sést í síðustu leikjum. Við erum að fá á okkur færri mörk í ár. Ég held að ég hafi aldrei fengið jafnmörg mörk á mig á ferlinum og í fyrra. Við þurftum að skoða þetta, tala um þetta, það lagast ekkert nema rætt sé um hlutina."

Pressutölur meistaraliða
Manchester City, sem dæmi, var með 10,06 í PPDA á nýliðnu tímabili sem er hækkun um hálfa sendingu að meðaltali (9,47) frá tímabilinu þar á undan. Leverkusen, Inter og Real Madrid eru öll með rúmlega 11 í PPDA.

Leikurinn gegn ÍA hefst klukkan 19:15 og fer fram á Kópavogsvelli
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 13 9 3 1 32 - 13 +19 30
2.    Breiðablik 12 8 2 2 27 - 14 +13 26
3.    Valur 12 7 4 1 30 - 15 +15 25
4.    ÍA 11 5 2 4 21 - 15 +6 17
5.    FH 11 5 2 4 21 - 21 0 17
6.    Fram 12 4 4 4 18 - 18 0 16
7.    Stjarnan 13 5 1 7 24 - 28 -4 16
8.    KR 12 3 4 5 22 - 24 -2 13
9.    HK 11 4 1 6 14 - 21 -7 13
10.    Vestri 12 3 1 8 15 - 31 -16 10
11.    KA 11 2 2 7 17 - 27 -10 8
12.    Fylkir 12 2 2 8 18 - 32 -14 8
Athugasemdir
banner
banner