Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
   sun 23. júní 2024 21:02
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Þjóðverjar björguðu toppsætinu - Ungverjar unnu á 100. mínútu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveir síðustu leikirnir í A-riðli Evrópumótsins fóru fram í kvöld og voru heimamenn í landsliði Þýskalands næstum búnir að tapa gegn Sviss, en Niclas Füllkrug bjargaði málunum í uppbótartíma.

Þjóðverjar komu boltanum í netið á 17. mínútu en ekki dæmt mark vegna brots í aðdragandanum og ellefu mínútum síðar tóku Svisslendingar forystuna.

Dan Ndoye gerði þá vel að klára af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Remo Freuler í hraðri sókn. Manuel Neuer átti ekki möguleika.

Þjóðverjar komust lítið áleiðis í fyrri hálfleik og var staðan 1-0 í leikhlé. Þeir juku sóknarþungan í síðari hálfleik en tókst þó ekki að skapa sérlega mikla hættu þar til í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Þá var komið að Niclas Füllkrug, sem var skipt inn af bekknum á 76. mínútu, og skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf frá David Raum.

Jöfnunarmarkið skoraði hann á 92. mínútu og urðu lokatölurnar 1-1. Þjóðverjar halda því toppsæti A-riðils á meðan Sviss gulltryggði annað sætið.

Skotar og Ungverjar mættust þá í úrslitaleik um þriðja sætið en hvorugu liði tókst að skora fyrr en eftir 100 mínútna leik.

Fyrri hálfleikurinn var hrikalega leiðinlegur þar sem Skotar héldu boltanum vel innan liðsins en sköpuðu sér engin færi. Ungverjar fengu einu færi hálfleiksins en af þeim stafaði lítil hætta.

Síðari hálfleikurinn var skemmtilegri en þó áfram nokkuð bragðdaufur. Ungverjar voru sterkari framanaf en þeir fundu ekki netið.

Skotar tóku að sækja á lokakafla leiksins og gerðu sig líklega til að skora í uppbótartímanum, en tókst ekki. Þeir galopnuðu vörnina og hleyptu Ungverjum í skyndisókn.

Ungverjar útfærðu skyndisóknina gífurlega vel og kláraði Kevin Csoboth með góðu marki.

Ungverjar enda því í þriðja sæti A-riðils, með þrjú stig. Þeir eiga góða möguleika á því að komast áfram í 16-liða úrslitin.

Sviss 1 - 1 Þýskaland
1-0 Dan Ndoye ('28 )
1-1 Niclas Fullkrug ('92)

Skotland 0 - 1 Ungverjaland
0-1 Kevin Csoboth ('100)

A-riðill:
1. Þýskaland - 7 stig
2. Sviss - 5 stig
3. Ungverjaland - 3 stig (markatala -3)
4. Skotland - 1 stig



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner