Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 25. apríl 2022 19:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Besta deildin: Þungu fargi létt af Blikum - Dramatík í Kaplakrika
Blikar fagna marki sínu.
Blikar fagna marki sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum í Vesturbæ.
Úr leiknum í Vesturbæ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur var á skotskónum fyrir FH.
Ólafur var á skotskónum fyrir FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik hafði betur gegn KR í stórleik umferðarinnar í Bestu deild karla í kvöld.

Er þetta í fyrsta sinn sem Breiðablik vinnur KR í deildarleik síðan í ágúst 2018.

Það var mikið líf og fjör í fyrri hálfleiknum í Vesturbæ og mikið um færi. KR-ingar voru líklegri til að skora en inn vildi boltinn ekki á fyrstu 45 mínútum leiksins. Stuttu eftir að seinni hálfleikur var flautaður á, þá kom fyrsta markið.

„KR vildi brott stuttu á undan, Blikum er sama og bruna upp. Ísak fær boltann úti vinstra meginn og leggur hann inn á teiginn þar sem Jason Daði stingur sér fram fyrir Grétar og setur boltann í netið af stuttu færi," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu þegar Jason Daði Svanþórsson kom Blikum yfir.

Það er hægt að deila um það hvort markið hafi verið sanngjarnt miðað við gang leiksins, en það skiptir í raun engu máli þegar upp er staðið.

KR-ingar náðu ekki að skapa sér eins góð færi í seinni hálfleik og lokaniðurstaðan 0-1 sigur Blika sem eru á toppi deildarinnar með sex stig eftir tvo leiki. KR er með þrjú stig.

Það er væntanlega þungu fargi létt af Blikum eftir að hafa loksins tekist að leggja KR að velli.

FH kom til baka gegn nýliðunum
Það var heldur betur dramatík í leik sem fram fór á sama tíma; FH tók á móti nýliðum Fram í Kaplakrika.

Það átti sér stað magnaður sex mínútna kafli í fyrri hálfleiknum. Albert Hafsteinsson skoraði á 20. mínútu eftir klaufaleg mistök í vörn FH. Ólafur Guðmundsson og Logi Hrafn Róbertsson voru allt annað en sannfærandi.

FH svaraði strax og skoraði Matthías Vilhjálmsson aðeins tveimur mínútum síðar. En nýliðarnir - sem allir spá falli - komust strax aftur yfir.

>„ÞVÍLÍKUR LEIKUR!!!! Tryggvi Snær fær boltann út til hægri og rennir boltanum inn á hættusvæðið og þar mætir Lexi og setur boltann í netið!" skrifaði Anton Freyr Jónsson í beinni textalýsingu þegar Alexander Már Þorláksson skoraði og kom Fram aftur yfir.

Nýliðarnir fóru með forystu inn í hálfleikshléið, en í seinni hálfleik tókst FH að snúa leiknum sér í vil. Það tók langan tíma, en það tókst að lokum.

Jöfnunarmarkið skoraði Ólafur Guðmunds eftir stórgóða sendingu frá Steven Lennon. Í uppbótartímanum skoraði svo Máni Austmann Hilmarsson, sem var fenginn frá Leikni í vetur, þegar boltinn hrökk fyrir fætur hans í teignum. Vuk Oskar Dimitrijevic batt lokahnútinn fyrir FH með fjórða markinu í uppbótartíma.

Lokatölur 4-2 fyrir FH og þeirra fyrstu stig komin í hús. Aftur á móti er þetta gífurlega svekkjandi fyrir Fram sem er án stiga eftir tvo leiki.

FH 4 - 2 Fram
0-1 Albert Hafsteinsson ('20 )
1-1 Matthías Vilhjálmsson ('22 )
1-2 Alexander Már Þorláksson ('26 )
2-2 Ólafur Guðmundsson ('78 )
3-2 Máni Austmann Hilmarsson ('90 )
4-2 Vuk Oskar Dimitrijevic ('94 )
Rautt spjald: Kristinn Freyr Sigurðsson, FH ('93)
Lestu um leikinn

KR 0 - 1 Breiðablik
0-1 Jason Daði Svanþórsson ('48 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner