Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 27. maí 2022 20:40
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Enginn hissa að við séum hérna
Klopp á æfingu Liverpool í dag.
Klopp á æfingu Liverpool í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Jürgen Klopp er spenntur fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid annað kvöld. Hann sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag og fór um víðan völl.


„Þetta verður erfiður leikur, Real Madrid er sigursælasta félag keppninnar og við erum að spila á móti nokkrum leikmönnum sem geta unnið Meistaradeildina í fimmta sinn. Þjálfarinn þeirra getur unnið í fjórða sinn. Þetta er reynsla sem þú færð ekki yfir nóttu," sagði Klopp.

„Við búum samt líka yfir þokkalegri reynslu úr keppninni. Við höfum komist í þrjá úrslitaleiki á fimm árum sem er mjög sérstakt. Það verður ekki vandamál að finna hvatningu fyrir úrslitaleikinn, það eru 26 leikmenn með í ferðalaginu og þeir eru allir með mismunandi hluti sem hvetja þá áfram fyrir þennan leik.

„Við erum ekki búnir að gleyma hvað gerðist í síðasta úrslitaleik gegn Real en það eru nokkur ár liðin. Einhverjir munu vilja hefna sín en það er mikilvægt að það sé ekki eini hvatinn. Það eru svo margar ástæður fyrir því að leikmenn ættu að gefa sig alla í leikinn annað kvöld. Tapið 2018 gæti verið ein ástæða en hún má ekki vera sú eina eða sú mikilvægasta."

Klopp, sem ætlar ekki að gera neinar breytingar á leikstíl Liverpool fyrir úrslitaleikinn, telur Real Madrid vera líklegri til sigurs vegna magnaðrar reynslu sinnar úr keppninni.

„Það er erfitt að svara þessu en ef ég horfi til sögunnar þá verð ég að segja Real Madrid því þeir búa yfir svo mikilli reynslu frá síðasta áratugi. Það sem er mikivægast fyrir okkur er að við spilum okkar leikstíl fullir sjálfstrausts, strákarnir myndu byrja að efast ef ég myndi breyta leikstílnum allt í einu fyrir einn leik. Ég veit ekki hvort liðið er sigurstranglegra og mér er eiginlega alveg sama.

„Við erum betra lið í dag heldur en síðast þar sem við mættum í talsvert verri aðstæður - við misstum lykilmann (Salah) í meiðsli og markvörðurinn (Karius) var með heilahristing. Strákarnir hafa þróað sinn leik mikið síðustu fjögur ár og þeir eru ekki komnir aftur í úrslitaleikinn fyrir slysni. Það er enginn hissa á því að við séum hérna."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner