Man Utd hefur rætt við Mbeumo - Newcastle vill Delap og Pedro - Chelsea hefur rætt um Ekitike
   þri 27. maí 2025 16:30
Elvar Geir Magnússon
Vond ákvörðun að setja Bramall á leikinn
Thomas Bramall.
Thomas Bramall.
Mynd: EPA
Keith Hackett, fyrrum yfirmaður dómaramála á Englandi, segir að dómarayfirvöld hafi tekið vonda ákvörðun með því að láta Thomas Bramall dæma leik Manchester United og Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag.

Manchester United vann 2-0 og Aston Villa missti af sæti í Meistaradeildinni.

Bramall gerði slæm mistök með því að flauta og dæma brot á Morgan Rogers rétt áður en hann setti boltann í netið. Bramall taldi Rogers hafa brotið á markverði United. Þar sem hann flautaði áður en boltinn fór í netið var ekki hægt að endurskoða atvikið í VAR.

Villa hefur sent formlega kvörtun yfir því að ekki hafi verið settur reynslumeiri dómari á leikinn.

„Á sama tíma var besti dómari landsins, Michael Oliver, að starfa sem VAR dómari á leik. Þetta er rosalega vond ákvörðun. Ég hefði búist við því að einhver af hæst skrifuðu dómurunum yrði settur á þennan leik," segir Hackett.
Athugasemdir
banner