Enski sóknarmaðurinn Gary Martin er búinn að finna sér nýtt félag fyrir komandi leiktíð en hann hefur skrifað undir samning við Hebburn Town í ensku utandeildinni.
Gary, sem er 34 ára gamall, yfirgaf Víking Ólafsvík eftir síðasta tímabil og hélt aftur heim til Englands þar sem hann samdi við Bishop Auckland í utandeildinni.
Framherjinn tilkynnti á X í gær að hann væri kominn með nýtt félag fyrir leiktíðina, en hann hefur samið við Hebburn Town sem leikur í Northern Premier League í utandeildinni.
Greinir hann frá því að þetta sé í fyrsta sinn síðan 2009 sem hann mun taka heilt undirbúningstímabil og tímabil heima fyrir.
Gary ólst upp hjá Middlesbrough á Englandi en hann kom til Íslands árið 2010 og samdi þá við ÍA. Einnig hefur hann leikið með KR, Val, Víkingi R., ÍBV, Selfossi og Ólafsvíkingum.
Á tíma hans á Íslandi skoraði hann 143 mörk í deild, bikar og Evrópu.
Erlendis hefur hann leikið með Újpest, Hjörring, Lilleström, Lokeren, York City, Darlington og Bishop Auckland.
Athugasemdir