Sádi-arabíska félagið Al Hilal hefur veitt portúgalska leikmanninum Bruno Fernandes frest til fimmtudags til að taka ákvörðun um framtíð sína en þetta kemur fram í Daily Mail í dag.
Umboðsmannateymi Fernandes hefur átt í viðræðum við Al Hilal síðustu vikur og hefur félagið þegar boðið honum samning.
Félagið hefur tjáð honum að hann þurfi að taka ákvörðun í síðasta lagi á fimmtudag.
Daily Mail heldur því fram að hann muni þéna um 700 þúsund pund í vikulaun og alls myndi hann fá 200 milljónir punda fyrir þrjú ár.
Ef hann samþykkir tilboð Al Hilal mun félagið senda 100 milljóna punda tilboð á Manchester United.
Fernandes er þrítugur og verið aðalmaður United síðustu fimm ár, en hann sagði eftir 1-0 tapið gegn Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar að hann vildi ólmur vera áfram, en að það væri United sem þyrfti að ákveða það hvort hann yrði seldur eða ekki.
Það mun því skýrast á næstu dögum hvort hann fari til Sádi-Arabíu eða ekki, en ef hann hafnar tilboði Al Hilal mun félagið fara á eftir Youri Tielemans hjá Aston Villa eða Ederson, sem er á mála hjá Atalanta á Ítalíu.
Athugasemdir