Mohamed Salah, marka- og stoðsendingakóngur ensku úrvalsdeildarinnar, segir hafa verið með tilboð frá Sádi-Arabíu áður en hann framlengdi við Liverpool.
Salah framlengdi samning sinn við Liverpool til tveggja ára í síðasta mánuði.
Miklar vangaveltur voru um framtíð hans og var lengi vel talið að hann væri á förum frá félaginu.
Egyptinn, sem er 32 ára gamall, telur sig enn eiga nóg eftir á tankinum.
„Ég mun hætta að spila þegar sú tilfinning kemur upp, en ef þú spyrð mig út í mína skoðun þá tel ég mig geta spilað til 39 ára eða fertugs. En eins og ég segi þá myndi ég hætta ef tilfnningin er þannig. Ég hef afrekað margt á ferlinum,“ sagði Salah við egypsku sjónvarpsstöðina ON Sports:
Áhugi félaga í Sádi-Arabíu var ekkert leyndarmál. Gerð var heiðarleg tilraun til að fá Salah sem hafnaði því í þetta sinn, en hann útilokar ekkert í framtíðinni.
„Mér fannst það vera gott tækifæri. Samingurinn minn við Liverpool var að renna út og ég hefði farið til Sádi-Arabíu, en ég kláraði samningaviðræðurnar við Liverpool. Samband mitt við Sádana er mjög gott og er ég í stöðugum samskiptum við þá. Við vorum í viðræðum.“
„Ég veit ekki hvað mun gerast, en ég er ánægður hér í Liverpool og verð áfram næstu tvö árin. Síðan munum við bara sjá til hvað ég mun gera næst,“ sagði Salah.
Salah skoraði 29 mörk og gaf 18 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili, en hann jafnaði þar met Alan Shearer og Andy Cole, sem komu báðir að 47 mörkum tímabilin 1993/1994 og 1994/1995.
Athugasemdir