KR mætir Stjörnunni í 9. umferð Bestu deildarinnar á fimmtudag. KR liðið er vængbrotið þegar horft er í varnarlínuna því liðið verður án Finns Tómasar Pálmasonar sem verður í leikbanni og þá eru þeir Birgir Steinn Styrmisson og Júlíus Mar Júlíusson að glíma við meiðsli.
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR, í dag.
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR, í dag.
Júlíus meiddur í mánuð
Ertu með varnarlínu fyrir leikinn á fimmtudaginn?
„Auðvitað er ég með varnarlínu, það verða alltaf einhverjir í vörn. En hverjir það verða, það er svo önnur saga. Við verðum alltaf með vörn, en það eru vissulega verulega stór skörð höggvin í leikmenn sem eru varnarmenn að upplagi, það er ljóst."
Er langt í Júlíus Mar?
„Það er örugglega mánuður."
Bara spurning hversu vel lausnirnar heppnast
Ertu að horfa í þann möguleika að t.d. Aron Þórður færist niður í varnarlínuna?
„Það verður bara að koma í ljós. við finnum alltaf einhverjar lausnir. Það er bara spurning hversu vel þær heppnast. Ég á síður von á því að Aron Þórður færist niður í varnarlínuna. Við erum með varnarmenn, svo er bara spurning hvenær ertu varnarmaður og hvenær ertu sóknarmaður, ertu hafsent eða bakvörður, það veltur á því hvernig þetta spilast. Við munum stilla upp einhverju til að berjast við Emil, Örvar og Benedikt Warén, það er alveg ljóst."
„Það er auðvitað ekki ákjósanlegt að Finnur sé í banni og Júlli og Biggi séu báðir frá í það minnsta mánuð. Það er ekki óskastaða."
Hjalti Sigurðsson, Gyrðir Hrafn Guðbrandsson, Ástbjörn Þórðarson, Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Róbert Elís Hlynsson hafa spilað í vörninni í upphafi tímabils.
Áferðin ólík eftir því hver spilar
Óskar hefur talað um að KR spili alltaf sinn leik. En út af meiðslum, gætir þú þurft að aðlaga leik liðsins fyrir leik á móti Stjörnunni?
„Nei, það er ekki planið að nálgast þennan leik eitthvað öðruvísi en við höfum gert. En auðvitað er það þannig að áferðin verður ólík eftir því hver er að spila í hverri stöðu. Það er bara þannig. Styrkleiki manna liggur á misjöfnum sviðum, sumir eru betri en aðrir að bera upp boltann og spila út úr vörninni á meðan aðrir eru betri í að verjast á stóru svæði. Það er engin grundvallarbreyting á hugmyndafræðinni, en áferðin verður öðruvísi en þegar við erum með Júlíus og Finn í hafsentunum. Það gefur auga leið," segir Óskar.
Leikur Stjörnunnar og KR hefst klukkan 19:15 á fimmtudagskvöld og fer fram á Samsungvellinum í Garðabæ.
Athugasemdir