Á morgun mætir Víkingur armenska liðinu FC Noah í Sambandsdeildinni. Leikurinn fer fram í Jerevan, höfuðborg Armeníu.
Íslandsmeistarar síðasta árs eru í góðri stöðu í Sambandsdeildinni; með sex stig eftir þrjá leiki og taldir eiga fína möguleika á því að komast í útsláttarkeppnina.
Íslandsmeistarar síðasta árs eru í góðri stöðu í Sambandsdeildinni; með sex stig eftir þrjá leiki og taldir eiga fína möguleika á því að komast í útsláttarkeppnina.
Íslenski landsliðsmaðurinn Guðmundur Þórarinsson er í liði Noah og á samfélagsmiðlum félagsins fræðir hann Armena um Ísland, eins og sjá má hér að neðan. Þar greinir hann frá því að góður hluti Íslendinga trúi á álfa og huldufólk, en tekur fram að hann sé ekki þar á meðal.
Gummi Tóta hefur verið á meiðslalistanum hjá Noah og ekki spilað fyrir liðið síðan 20. október. Hann var þó skráður á bekkinn en var ónotaður varamaður í 8-0 tapi gegn Chelsea í Sambandsdeildinni fyrr í þessum mánuði.
FC Noah var stofnað fyrir sjö árum síðan og endaði í öðru sæti armensku deildarinnar í fyrra. Fyrstu tvö árin hét liðið FC Artsakh en breytti nafni sínu 2019. Þrátt fyrir að vera kornungt félag hefur það gengið í gegnum miklar breytingar á líftíma sínum; skipt um eignarhald, leikvang og heimaborg. Síðasta sumar komu sextán leikmenn til félagsins, þar á meðal Gummi Tóta.
Kaupsýslumaðurinn Vardges Vardanyan, eigandi félagsins, segir að langtímamarkmið Noah sé að berjast um alla titla og skapa sér nafn í evrópskum fótbolta. Þá vilji hann að félagið skili upp leikmönnum fyrir armenska landsliðið og styrki fótboltann í landinu í heild sinni.
Nafnið á félaginu er tilvísun í Biblíuna; Örkina hans Nóa. Gamla testamentið segir að örkin hans Nóa hafi strandað á Ararat-fjalli við landamæri Armeníu. Fjallið drottnar yfir sjóndeildarhring Jerevan. Armenía var fyrsta landið í heiminum til að taka upp kristni sem opinbera trú á fjórðu öld.
Leikur Noah og Víkings verður klukkan 17:45 á morgun; í beinni á Viaplay og Vodafone Sport.
Athugasemdir