þri 28. maí 2024 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aziz undir í samkeppninni - Fer hann frá HK í sumar?
Marciano Aziz.
Marciano Aziz.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marciano Aziz spilaði rúmar tíu mínútur í gær þegar HK tapaði 3-1 fyrir Fylki í Bestu deildinni.

Fyrir leikinn í Árbænum í gærkvöldi hafði hann verið ónotaður varamaður í þremur leikjum í röð. Það eru engin meiðsli að hrjá hann en Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var spurður út í stöðuna á Aziz eftir leikinn gegn Fylkismönnum.

„Þeir sem hafa verið að spila í hans stöðu hafa bara spilað betur," sagði Ómar Ingi.

„Það er með hann eins og alla aðra sem hafa spilað lítið eða spilað ekki; þeir eru þá bara undir í samkeppninni um sína leikstöðu í augnablikinu."

Ómar var spurður að því hvort það væri möguleiki að Aziz muni yfirgefa HK í sumarglugganum.

„Ekki svo ég viti. Það er mjög langt í sumargluggann. Það hefur ekkert komið til umræðu hjá okkur."

Miklar væntingar voru gerðar til Aziz þegar hann kom fyrir síðasta tímabil. Hann hafði leikið vel með Aftureldingu í Lengjudeildinni en hefur alls ekki fundið sig með HK-ingum.
Ómar um Zidane-snúninginn: Mistök sem hann gerir ekki aftur
Athugasemdir
banner
banner