Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 29. nóvember 2022 17:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Fékk sent skjáskot af atvinnuauglýsingu - „Ertu tilbúinn í ævintýri?"
Perry Mclachlan.
Perry Mclachlan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá KR í sumar.
Úr leik hjá KR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg Ryder.
Gregg Ryder.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Perry og Jón Stefán Jónsson stýrðu Þór/KA í sumar.
Perry og Jón Stefán Jónsson stýrðu Þór/KA í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur þjálfað á Íslandi frá 2019.
Hefur þjálfað á Íslandi frá 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Þór/KA.
Úr leik hjá Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór/KA hafnaði í sjöunda sæti Bestu deildarinnar.
Þór/KA hafnaði í sjöunda sæti Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað í sumar.
Marki fagnað í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eru góðir vinir en vinna á mismunandi hátt sem þjálfarar.
Eru góðir vinir en vinna á mismunandi hátt sem þjálfarar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýtt verkefni framundan með KR.
Nýtt verkefni framundan með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er spenntur. Þetta er verkefni, nýtt upphaf fyrir mig og félagið," segir Perry Mclachlan, nýr þjálfari kvennaliðs KR, í samtali við Fótbolta.net.

Perry hefur þjálfað á Íslandi frá árinu 2019, fyrst sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Þórs og markmannsþjálfari, svo sem aðstoðarþjálfari Þór/KA. Í sumar var hann svo annar af aðalþjálfurum liðsins, það er að segja Þór/KA.

„Íslenskan mín er allt í lagi. Ég skil nokkuð mikið. Ég er í kringum íslensku alla daga en náttúrulegi hreimurinn minn gerir það mjög erfitt fyrir mig að bera fram mörg íslensk orð. Ég er ekki góður að tala íslensku en ég er að bæta mig," segir Perry í samtali við undirritaðan en viðtalið fór fram á ensku. Þó mátti heyra að hann er farinn að blanda íslenskunni við enskuna að einhverju leyti.

Perry, sem er fæddur árið 1990, var á dögunum ráðinn til KR og kveðst hann spenntur fyrir verkefninu sem er framundan.

„Þetta er spennandi verkefni sem ég er að taka að mér hjá KR. Það eru hlutir sem verða að breytast og það mun hjálpa félaginu að taka skref fram á við þegar það gerist. Ég kom mér í samband við félagið og við ræddum nokkrum sinnum saman. Báðir aðilar voru með sömu hugmyndir um hvað þyrfti að gera og hvað þyrfti að breytast til að fara upp á við."

Perry var orðaður við nokkur mismunandi félag eftir að það var ljóst að hann yrði ekki áfram hjá Þór/KA. Þar á meðal var Keflavík en Jonathan Glenn var ráðinn þangað.

„Ég talaði við nokkur mismunandi félag. Í forgangi hjá mér var að komast aftur í fótboltann. Ég talaði við Keflavík á sama tíma og ég talaði við KR. Svona atvikuðust hlutirnir og ég er ánægður hvernig þetta fór."

Þetta er nýtt upphaf fyrir félagið
KR féll úr Bestu deildinni í sumar og var það harðlega gagnrýnt hvernig staðið var að félaginu. Leikmenn og þjálfarar gerðu það. Umgjörðin í kringum kvennalið KR var mikið til umræðu en félagið hefur talað um það að ætla sér að bæta hlutina.

„Það eru vandamál hjá hverju einasta félagi," segir Perry. „Það er fjallað um sum þeirra meira en önnur. Þetta breytist ekki á einni nóttu, en félagið ætlar sér að gera hlutina rétt. Það breytist ekki allt strax, þetta mun taka tíma. Við þurfum að komast að rót vandans og laga það svo þetta gerist ekki aftur."

„Þegar ég kom inn hjá félaginu þá ræddi ég við leikmennina og heyrði þeirra hlið, þeirra skoðun. Ég hef ekki rætt mikið við fyrrum þjálfara, bara örlítið. Við þurfum að fara líta fram veginn."

„Þetta mun taka tíma. Þetta er nýtt upphaf fyrir félagið. Verkefnið er spennandi og ég tel að leikmennirnir megi vera spenntir líka. Við öll hjá félaginu skiljum að þetta mun taka tíma. Við þurfum að taka rétt skref. Við viljum ekki fara upp og falla strax aftur, við þurfum að byggja upp og gera þetta almennilega."

Vegur þungt á ferilskránni
Ásamt því að þjálfa þá hefur Perry einnig töluverða reynslu af þjálfun á Englandi og í Bandaríkjunum. Hann var meðal annars hjá kvennaliði Chelsea sem og í akademíu drengja og stúlkna í félaginu. Var hann þá um tíma við markmannsþjálfun hjá Crystal Palace og yfirþjálfari stúlkna- og drengjaliða við fótboltastofnun í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

„Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að þjálfa hjá Chelsea, ég var um tvítugt," segir Perry. „Ég sinnti mörgum mismunandi störfum hjá félaginu. Ég var mjög heppinn að lærifaðir minn - sá sem kenndi mér hvað mest - var að starfa bæði í kringum kvennaliðið og í akademíunni hjá strákunum. Ég komst þannig þangað inn. Það var mögnuð reynsla að vinna með þjálfurunum og leikmönnunum sem voru þarna, læra mismunandi aðferðir og þess háttar. Ég tók mikið með mér frá félaginu og myndaði persónulega hugmyndafræði út frá því."

„Eftir það fór ég til Bandaríkjanna, til Norður-Karólínu. Ég var þar í tvö ár. Svo kom ég aftur til Englands og fór að starfa hjá Crystal Palace. Ég var þar í mjög stuttan tíma, það starf hentaði mér ekki á þeim tíma. Það var þó frábær reynsla. Ég er mjög heppinn að vera með svona reynslu á bak við mig."

Hvernig kom það til að hann fór ungur að árum að starfa hjá Chelsea, einu stærsta félagi Englands?

„Einn af þjálfurunum sem sem þjálfaði mig þegar ég var yngri var að þjálfa hjá Chelsea og var með tengsl þar. Þeir voru að leita markvarðarþjálfara og ég komst þangað inn. Ég vann mig upp með honum. Ég kom fótnum inn um dyrnar og það opnaði margar leiðir fyrir mig hjá félaginu. Ég fékk frábært tækifæri, það er allt í efsta klassa þarna. Félagið er eins og vel smurð vél. Það er fyndið hvað þetta vegur enn þungt á ferilskránni minni meira en átta árum eftir að ég fór. Ég er enn í sambandi við mikið af fólki hjá félaginu og ég er mjög þakklátur að hafa verið þarna."

Perry vissi ungur að árum hvað hann ætlaði sér að gera. Hann hefur undanfarin ár verið að sækja sér reynslu og menntun er viðkemur fótboltaþjálfun.

„Ég átti líka frábæran tíma í Bandaríkjunum og lærði mikið þar. Ég fór og var þarna einn. Það mótaði mig mikið. Ég lærði öðruvísi hluti þar og það hjálpaði mér. Það var meiri persónuleg reynsla, ég lærði að vinna með fólki frá öðruvísi menningarheimum. Það hjálpaði mér líka að aðlagast mismunandi stöðum og umhverfum."

„Mamma, ég er að fara til Íslands"
„Gregg Ryder réði mig þegar hann tók við Þór," segir Perry en hann kom til Íslands í janúar 2019. Þá var hann ráðinn í þjálfarateymi hjá áðurnefndum landa sínum sem hafði þá tekið við sem þjálfari karlaliðs Þórs.

„Ég þekkti hann ekkert áður en eftir að hann réði mig þá höfum við átt gott vinasamband. Ég er mjög þakklátur honum því ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ekki væri fyrir hann. Ísland er heimili mitt núna. Eiginkona mín og börn eru íslensk. Ég lít á landið sem heimili mitt. Þetta er fallegur staður og ég elska að vera hérna. Ég er þakklátur fyrir öll tækifæri sem ég hef fengið hér á landi," segir Perry en hvernig endaði hann á Íslandi?

„Vinur minn á Englandi sendi mér skjáskot af atvinnuauglýsingu. Hann spurði mig: 'Langar þér í ævintýri?' Ég skoðaði auglýsinguna og sótti um. Ég fór í gegnum ferlið og gerði allt sem ég var beðinn um að gera."

„Gregg hringdi svo í mig og sagði að ég væri kominn með starfið. 'Ég sé þig bráðum'. Akureyri er lítill staður miðað við heimaborg mína. Ég er frá Suður-London. Þetta er gríðarlega fallegur staður, þú sérð svona staði bara á póstkortum. Þetta var allt öðruvísi en ég hafði upplifað áður. Allir dagar voru ný upplifun, sérstaklega með veðrið og snjóinn. Hér keyra allir þegar það eru snjóbylur úti. Það var frábært að upplifa þetta; ég hef ekkert slæmt að segja um Ísland og veru mína hér."

„Ég vissi ekki mikið um Ísland áður en ég kom hingað, ég hafði aldrei komið hingað til lands áður en ég fékk starfið hjá Þór. Þetta er frábær staður. Það eina sem ég vissi er að það yrði kalt."

„Ég sagði við mömmu að ég væri búinn að fá starf á Íslandi og ég væri að fara eftir tvær vikur. Mamma var spennt fyrir mína hönd. Hún vissi að ég nýt þess að prófa nýja hluti og að ég væri með markmið sem ég vildi ná í fótbolta; það yrði líklega auðveldara fyrir mig að komast að annars staðar en á Englandi. Hún var ánægð fyrir mína hönd. Hún myndi sakna mín en hún skildi þetta vel. Mamma og pabbi eru bæði búin að koma nokkrum sinnum í heimsókn. Þeim líkar mjög vel hérna."

Fer frá Akureyri í höfuðborgina
Perry hefur undanfarin ár búið á Akureyri og er þar búinn að stofna fjölskyldu. Núna flytur fjölskyldan yfir í höfuðborgina þar sem hann er búinn að taka að sér starfið hjá KR. Er sorglegt að yfirgefa Akureyri?

„Já og nei. Akureyri hefur verið heimabær minn síðustu þrjú, fjögur árin. Ég býst ekki við því að Reykjavík sé mjög mikið öðruvísi. Það er bara stærri staður og meira af fólki. Þetta er bæði sorglegt og spennandi. Ég er spenntur fyrir tækifærinu að búa og vinna í Reykjavík."

„Ég er þakklátur fyrir tímann hjá Þór og Þór/KA. Ég eignaðist marga góða vini og félaga. Þetta var gaman á meðan þetta entist. Þetta endaði kannski fyrr en ég vonaðist til en ég er bara þakklátur fyrir tækifærið og óska félaginu alls hins besta."

Þetta kom mér á óvart
Þór/KA hafnaði í sjöunda sæti Bestu deildarinnar í sumar. Var árangurinn vonbrigði?

„Þú lítur á hópinn á pappír og það er klárlega hægt að færa rök fyrir því að þetta sé mjög góður hópur, en við lentum í meiðslum og öðru sem hafði áhrif. Hópurinn er líka mjög ungur. Við getum tekið margt úr þessu tímabili. Það fengu margir ungir leikmenn tækifæri til að spila og þróa leik sinn áfram."

„Þegar á heildina er litið hefðu hlutirnir getað farið betur að einhverju leyti, en svona er þetta. Við fengum ekki bestu höndina þegar kom að meiðslum en við gerðum okkar besta í stöðunni," segir Perry sem bætir við að það hafi komið sér á óvart að fá ekki að halda áfram með liðið.

Hann og Jón Stefán Jónsson þjálfuðu Þór/KA í sumar en þó þeir hafi verið góðir félagar þá voru þeir sammála um að þeir myndu ekki starfa saman áfram. Þeir bjuggust við því að annar hvor þeirra fengi að vera áfram, en þeir voru báðir látnir fara.

„Ég veit það ekki. Ég er ekki rétti aðilinn til að svara því. Félagið þarf að svara því," segir Perry um ástæðuna fyrir því að hann hafi ekki fengið að halda áfram. „Við héldum að annar hvor okkar myndi halda áfram en svo vorum við báðir látnir fara. Það kom okkur báðum á óvart. Félagið þarf að svara fyrir um þetta."

„Þetta kom mér á óvart. Ég lagði gríðarlega mikið á mig allt árið. Mér fannst ég eiga skilið að vera áfram. Það er mitt persónulega mat, það er mitt álit. Ég held að leikmennirnir séu sammála mér, mér finnst það líklegt. Ég gaf allt sem ég gat svo tímabilið yrði sem best," segir Englendingurinn.

„Ég dýrka Jónsa í tætlur en við vorum sammála um að við vinnum á mismunandi hátt sem þjálfarar. Það voru aldrei nein rifrildi eða neitt þannig, en við vorum sammála um að við vinnum öðruvísi og samstarfið væri ekki að virka. Eftir samræður við félagið þá virtist það stefna í þá átt að annar okkar yrði þjálfari liðsins. Önnur ákvörðun var tekin og það er eins og það er. Svona er fótboltinn."

Að finna stöðugleika
KR er stórveldi í íslenskum fótbolta en kvennalið félagsins hefur hefur verið mikið jó-jó lið undanfarin ár; hefur verið að flakka upp og niður um deildir. Það hefur verið mikið rætt um það að umgjörðin sé ekki góð, en Perry segir að það stefnt á að gera betur í félaginu og það sé núna mikilvægt að finna stöðugleika.

Er hann er spurður hvort markmiðið sé að fara beint aftur upp, þá segir hann svo ekki endilega vera. Hann segir að það sé mikilvægara að byggja upp lið sem getur farið upp, haldið sér uppi og verið samkeppnishæft í efstu deild.

„Ég held að metnaðurinn sé alltaf að gera eins vel og við getum. KR er stórt félag og ætti að vera í efstu deild en það er mikilvægt að gera réttu hlutina hjá félaginu svo við séum í góðri stöðu þegar við förum upp, að við getum þá haldið okkur uppi og farið í alvöru samkeppni. Það er markmiðið núna. Ef við förum upp þá er það frábært en það er í forgangi að ná stöðugleika hjá félaginu," segir Perry Mclachlan en það verður fróðlegt að fylgjast með hans verkefni í Vesturbænum.
Athugasemdir
banner
banner
banner