Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 23. júní 2019 12:50
Elvar Geir Magnússon
Beitir var með of mikið járn í blóði - „Er ég orðinn gamall?"
Beitir mætti í hljóðver X977 í gær.
Beitir mætti í hljóðver X977 í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Beitir í leik með KR gegn Stjörnunni.
Beitir í leik með KR gegn Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Beitir Ólafsson hefur varið mark KR með mikilli prýði í Pepsi Max-deildinni í sumar. Hann kom í áhugavert og skemmtilegt viðtal í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Beiti

Í viðtalinu sagði hann meðal annars frá vandamáli sem var að hrjá hann á síðasta tímabili en náði að finnast lausn á.

„Í fyrra fannst mér ég vera undir pari. Í kringum áramótin þá greinist ég með of hátt járnmagn í blóðinu. Það gerir það að verkum að þetta ræðst á miðtaugakerfið og allt verður miklu erfiðara. Þetta hefur til dæmis áhrif á einbeitinguna. Ég hugsaði í fyrra 'Er ég orðinn gamall? Hvernig líður þá Gulla?'" segir Beitir.

„Síðan kemur þetta í ljós og lífsgæðin mín eru allt önnur. Ég komst ekki inn í bílinn vegna stífleika en nú er það allt annað."

Beitir fór í meðferð þar sem ákveðið magn af blóði var tekið úr honum vikulega.

„Það er búið að ná þessu niður og nú þarf ég að fara 3-4 sinnum á ári. Þetta var svo gígantískt. Það var allt orðið rosalega erfitt en breytt ástand hefur skilað sér inn í æfingar og leiki," segir Beitir.

Ræddum saman eins og fullorðnir menn
Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson var orðaður við KR í vetur en hann gekk svo í raðir Vals. Beitir var spurður að því hvað hefði flogið í gegnum huga hans á meðan talað var um að Hannes gæti komið í KR. Hann segir engan feluleik hafa verið í gangi varðandi málið.

„Við ræddum þetta bara. Við erum fullorðnir menn og tölum bara tungumálið okkar. Þannig er þetta bara í KR. Þeir vilja árangur og taka besta manninn. Þetta er skrítin umræða, auðvitað taka þeir manninn sem hefur náð besta árangri með landsliðinu frá upphafi. Það vilja allir fá hann og við felum okkur ekkert bak við það," segir Beitir.

„Þeir hafa trú á mér og gáfu mér traustið. Ég er ánægður og þakklátur fyrir það. Ef maður getur sýnt eitthvað það þá er það bara gaman."

Væri ekki í fótbolta í dag
Beitir var í raun hættir í fótbolta þegar KR-ingar lentu í meiðslavandræðum hjá markvörðum sínum sumarið 2017. Beitir hafði leikið fyrir Keflavík sumarið á undan en var búinn að leggja hanskana á hilluna.

„Ég ætlaði bara að fara að gera eitthvað annað," segir Beitir en þá kom símtalið frá KR-ingum.

„Auðvitað er þetta óvænt og rosalega gaman. Ef þetta hefði ekki gerst þá væri ég ekki að spila fótbolta í dag. Maður hugsar út í hversu mikið maður hefði verið til í að alast upp í svona umhverfi eins og er hjá KR."

„Umhverfið í Vesturbænum er þannig að þú finnur fyrir öllu, ef það gengur vel eða ef það gengur illa þá finnur þú fyrir því. Þetta er ógeðslega gaman. Það er svo mikil sigurhefð. Í salnum eru myndir af öllum meisturunum og maður hugsar um að vilja vera hluti af þessu," segir Beitir en KR-ingar, sem eru í öðru sæti Pepsi-Max-deildarinnar, mæta FH-ingum í Kaplakrika í kvöld.


Beinar textalýsingar:
16:00 Stjarnan - Fylkir
16:00 Valur - Grindavík
17:00 KA - Víkingur R.
19:15 FH - KR
Athugasemdir
banner
banner
banner