Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 01. desember 2019 22:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Aron Sig: Er að eiga mitt langbesta tímabil sem atvinnumaður
Aron fagnar með landsliðinu.
Aron fagnar með landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Fagnað með Fjölni.
Fagnað með Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Aron í leik með Fjölni árið 2015.
Aron í leik með Fjölni árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Aron í viðtali í landsliðsverkefni.
Aron í viðtali í landsliðsverkefni.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Aron gegn Mexíkó.
Aron gegn Mexíkó.
Mynd: Getty Images
Fjölnismaðurinn Aron Sigurðarson er á mála hjá Start. Liðið endaði í 3. sæti norsku OBOS-Ligaen og leikur í umspili um að komast upp í efstu deild.

Start sigraði í dag umspilið í næstefstu deild (1-0 sigur gegn KFUM) og mætir því Lilleström, þriðja neðsta liðinu í Eliteserien (efstu deild) í tveimur úrslitaleikjum um laust sæti í efstu deild.

Fótbolti.net heyrði í Aroni í dag og ræddi við hann um stöðu mála.

Fréttaritari vildi byrja á árinu 2015 þegar Tromsö sýnir áhuga, voru fleiri lið að skoða Aron á þeim tímapunkti?

„Eftir tímabilið 2015 með Fjölni sem gekk persónulega frekar vel fer ég á reynslu til Tromsö snemma í janúar 2016 og stend mig vel þar."

„Þegar ég er á reynslu hjá Tromsö er ég valinn í landsliðshóp fyrir æfingaleik við Bandaríkin seint í janúar. Ég byrja þann leik og skora mitt fyrsta mark í honum."

„Eftir landsleikinn eru nokkur lið sem vildu fá mig á reynslu en samningaviðræður við tromsö voru nánast klárar, þess vegna fór ég ekki á neinar reynslur á þeim tíma,"
sagði Aron við Fótbolta.net

Tromsö vildi fá of mikinn pening frá Twente
Aron gekk í raðir Tromsö árið 2016 frá Fjölni og gerði fyrsta tímabilið vel upp í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net. Þar nefnir hann að hann ætli að "pakka saman" næsta tímabili. Því sleppum við að ræða um tímabilið 2016 og vippum okkur í árið 2017.

Aron byrjar tímabilið sem lykilmaður hjá Tromsö en í ágúst fer að halla undan fæti og undir lok tímabils er hann ónotaður varamaður í átta af síðustu tíu leikjum liðsins. Um sumarið var Aron orðaður við Twente en ekkert varð úr vistaskiptum til Hollands. Aron var spurður út í tímabilið 2017 hjá Tromsö.

„Tímabilið byrjaði vel og ég spila alla leiki og er persónulega að spila vel en liðið var í basli og vorum ekki að ná í mörg úrslit."

„Um sumarið sýnir FC Twente áhuga og koma og horfa á leik hjá mér og ég fer eftir leik að tala við þá. Þeir tala við Tromsö seinna um kvöldið og ég býst við að félögin myndu klára það á næstu dögum."

„Tromsö var ekki tilbúið að láta mig fara nema fyrir mikinn pening vegna þess að við vorum að berjast fyrir því að halda okkur í deildinni og því varð ekkert úr vistaskiptunum."

„Stuttu eftir það er þjálfarinn minn rekinn og nýr þjálfari tekur við. Ég spila mjög lítið eftir að hann tók við liðinu."


Slæmt fyrsta tímabil hjá Start - Mátti fara eftir leiktíðina
Aron gekk í raðir Start eftir annað tímabilið hjá Tromsö. Start lék í efstu deild á því tímabili en féll niður í næstefstu deild. Aron skoraði einungis eitt mark í 17 leikjum á þeirri leiktíð. Hvernig var tímabilið hjá Aroni?

„Tímabilið var alls ekki gott og við féllum úr deildinni."

Var 100% að Aron yrði með Start á leiktíðinni árið 2019?

„Ég fékk fréttir eftir tímabilið að ég væri ekki inn í myndinni hjá þjálfaranum og mætti fara annað. Það var því alls ekki pottþétt að ég myndi spila með Start á þessari leiktíð."

Langbesta tímabilið í atvinnumennskunni
Aron lék frábærlega með Start á leiktíðinni sem er að klárast. Start endaði í 3. sæti deildarinnar og fór því í umspil. Aron kom að fullt af mörkum hjá Start sem vakti athygli, hann er einn af þremur sem koma til greina sem besti leikmaður deildarinnar. Hvernig hefur tímabilið í ár verið?

„Tímabilið í ár hefur gengið vel, byrjaði hvern einasta leik og skora 13 mörk og legg upp önnur 13 mörk í 29 leikjum."

„Þetta var hörð samkeppni fram að síðasta leik um að fara upp um deild. Stefnan var að fara beint upp og við eigum ennþá séns að fara upp um deild í gegnum umspil og munum spila 2 leiki við lið í efstu deild. Persónulega er ég sáttur með tímabilið og er þetta mitt langbesta tímabil síðan ég fór í atvinnumennsku."


Alltaf heiður að spila fyrir landsliðið
Aron var valinn í landsliðið fyrir æfingaleik gegn Bandaríkjunum árið 2016. Aron skoraði í sínum fyrsta leik með landsliðinu og var næst valinn árið 2017, þá skoraði hann gegn Kína.

Síðan þá hefur hann spilað fjóra landsleiki og verið á bekknum í tveimur leikjum í undankeppni fyrir HM. Hvernig lítur Aron á landsliðið í dag?

„Það er alltaf heiður að spila fyrir landsliðið og það var frábært að skora tvö mörk í fyrstu tveimur landsleikjunum Ég var í hópnum gegn Kósovó úti og Króatíu heima sem var frábær upplifun."

Að lokum, vonast Aron eftir því að fá kallið í janúar?

„Markmiðið er að sjálfsögðu að komast nær hópnum og það vonandi gerist með góðri spilamennsku með félagsliðinu," sagði Aron að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner