Tveir stuðningsmanna Víkinga, Guðjón Guðmundsson og Heimir Gunnlaugsson sem hugsanlega munu taka fram skóna til að leika með Berserkjum.
Knattspyrnufélagið Berserkir var stofnað í Víkingsheimilinu í gærkvöld en félagið er tengslafélag Víkinga og stefnir á að taka þátt í 3. deild karla næsta sumar.
Í yfirlýsingu frá félaginu segir:
,,Markmið félagsins er að stuðla að framgangi og enn frekari uppbyggingu knattspyrnuíþróttarinnar innan Víkings með það sem meginviðfangsefni að gefa ungum knattspyrnumönnum sem aldir hafa verið upp hjá félaginu möguleika á að iðka íþróttina áfram innan vébanda félagsins enda þótt þeir nái ekki að festa rætur innan meistaraflokks Víkings strax eftir að þátttöku í 2. flokki lýkur."
Nafnið Berserkir er sama nafn og stuðningsmannahópur Víkinga ber en sá hópur hefur verið gríðarlega öflugur í stúkunni undanfarin ár óháð hvaða deild liðið hefur leikið í.
Liðið bíður nú eftir að fá keppnisleyfi frá Íþróttasambandi Íslands og í kjölfar þess munu þeir verða skráðir til leiks í 3. deild. Liðið mun að öllum líkindum leika heimaleiki sína á aðalvellinum í Víkinni og mun leika í Berserkjabúningunum sem eru svartir og rauð röndóttir eins og aðalbúningar Víkinga.
Slík tenglafélög eru þekkt annars staðar hér á landi og má þannig nefna HK og Ýmir í Kópavogi, ÍBV og KFS í Vestmannaeyjum og fleiri.
Stjórn Kf. Berserkir skipa eftirtaldir einstaklingar:
Formaður:
Tómas Þór Þórðarson
Meðstjórnendur:
Einar Guðnason
Einar Ásgeir Einarsson
Sigurhjörtur Snorrason
Gunnlaugur A. Júlíusson
Athugasemdir