Man Utd reynir við Gyökeres í þessum glugga - Trent færist nær Real Madrid - Arsenal leiðir kapphlaupið um Omar Marmoush
banner
   mán 09. júlí 2007 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Heyrnarlaus stúlka leikur með ÍR í Landsbankadeild
Ana Rita Andrade Gomes í leik með ÍR gegn KR fyrr í mánuðinum.
Ana Rita Andrade Gomes í leik með ÍR gegn KR fyrr í mánuðinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttu við landsliðskonuna Önnu Björg Björnsdóttur í leik ÍR og Fylkis.
Í baráttu við landsliðskonuna Önnu Björg Björnsdóttur í leik ÍR og Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skipanir gefnar með handabendingum.
Skipanir gefnar með handabendingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hér hefur hún gætur á einum af skæðari framherjum deildarinnar, Hrefnu Jóhannssdóttur í KR.
Hér hefur hún gætur á einum af skæðari framherjum deildarinnar, Hrefnu Jóhannssdóttur í KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heyrnarlaus stúlka leikur með liði ÍR í Landsbankadeild kvenna og lætur fötlunina ekkert á sig fá og notar önnur skilningavit þeim mun meira til að ná árangri í fótboltanum. Hún heitir Ana Rita Andrade Gomes og er portúgölsk landsliðskona sem kom til ÍR fyrir tímabilið og gæti hugsað sér að setjast að hér á landi.

Við ræddum við Halldór Halldórsson þjálfara ÍR um stúlkuna og hvernig hefur gengið að vinna með henni þrátt fyrir fötlun hennar. ,,Það gengur alveg ótrúlega vel, þessi dama er svo mikill gullmoli að það hálfa væri nóg," sagði Halldór í samtali við Fótbolta.net.

,,Ég fór út á sínum tíma og kíkti á hana til að sjá hvernig hún væri og hvernig ég gæti náð til hennar. Bendingar og leikreynsla hennar segir alveg sitt. Ég þarf ekki að gera mikið annað en að benda og sýna á töflu eða sýna með svipbrigðum eða látbragði svo hún móttaki það."

,,Þetta hefur gengið vonum framar en að er mjög sérstakt að vera með miðvörð sem er reynslumesti leikmaðurinn í liðinu og er heyrnarlaus. Það er ekki algengt að svona sé. "


Eins og fyrr sagði er Ana Rita landsliðskona frá Portúgal og hefur gríðarlega reynslu í boltanum. Hún verður 31 árs á þessu ári og reynslan hefur bætt henni upp það sem á skortir vegna heyrnarleysisins.

,,Það sem hún hefur fram yfir aðra leikmenn er það að hún er með öll önnur skilningsvit á fullum krafti og leitar mjög mikið í kringum sig til að vera viss um hvað hún er að gera," hélt Halldór áfram. ,,En það hefur háð henni af og til auðvitað því hún heyrir ekki þegar fólk kallar, hvort sem tveir menn koma frá sitthvorri hliðinni eða hvað er, þá hefur hún haft reynsluna til að leysa það."

Halldór segir að hann lendi ekki oft í vandræðum með að vera í samskiptum við hana í leikjum enda njóti hann aðstoðar liðsfélaga hennar ef þess þarf auk þess sem hún sjálf leiti mikið til hans í leikjum.

,,Í flestum tilfellum er það næsti leikmaður á vellinum sem nær til hennar. Annars er hún sífellt að líta til mín þegar ég þarf að ná til hennar. Hún spilar sem miðvörður svo henni gefst kostur að líta til baka þegar við erum í föstum leikatriðum."

,,En í leikjum er oftast mikill hávaði svo þær heyra ekki alltaf það sem maður er að segja. Þá duga bendingarnar og þá er svona leikmaður fljótur að meðtaka þegar maður þarf bara að sýna bendingar."


Halldór hefur gjarnan bolta sér við hönd er hann stendur við hliðarlínuna og stýrir liði sínu en það gerir hann til að auðvelda þeirri portúgölsku að skilja handabendingar sínar þegar þess þarf.

,,Stundum þegar ég þarf til dæmis að segja henni að hreinsa boltann þá sýni ég henni það bara með bolta sem ég er með við hliðarlínuna. Leikreyndir leikmenn eins og hún þurfa ekkert nema bara handabendingar oft og svo næ ég oft til hennar í hálfleik."

ÍR hefur einnig aðra portúgalska stúlku sem hefur leikið með Ana Rita í nokkur ár með félags- og landsliði og á auðvelt með að tala við hana og hjálpar Halldóri þannig í samskiptum við hana.

Þá er Bryndís Jóhannesdóttir leikmaður liðsins einnig að læra táknmálsfræði og hefur unnið vel með henni og kynnst henni vel og það hjálpar einnig til. En hvernig gengur öðrum stúlkum í liðinu að venjast þessum stúlkum í liðinu.

,,Þær eru mjög opnar og taka þeim vel og þessar stelpur eru að aðlagast rosalega vel," sagði Halldór.

,,Við erum ekki bara að hugsa til ársins í ár því ef allt gengur eftir verða þær með okkur áfram. En það er háð veðri og vinnu og við verðum að standa við okkar sem hefur gengið mjög vel. þeim líkar mjög vel og finnst gaman að vera í íslensku deildinni sem er að verða sterkari."

Stúlkurnar koma báðar út atvinnumannadeild ytra og því vanar því að lifa bara á fótbolta. Hér á landi búa þær þó ekki svo vel og vinna því með fótboltanum. Þær eru báðar menntaðar nuddarar og starfa við það í World Class auk þess að taka að sér verkefni hjá félaginu og í kringum það.

,,Þær eru með dvalar- og atvinnuleyfi og eru á fullu að reyna að skapa sér framtíð hér á landi. Þær segja sjálfar að ef vel gengur hér séu þær ekki bara að hugsa um fótbolta heldur seinna líf, ef allt gengur vel hafa þær áhuga á að setjast að hér á landi því það er ekkert meira sem bíður þeirra heima," sagði Halldór.

,,Ef þær ná að vinna við sína menntun eins og þær gera núna þá er þetta það sem þær vilja. Þó þær fá bara þessa vinnu hér heima þá hjálpar það þeim líka í framtíðinni því ísland hefur gott orðspor gagvnart fólki sem hefur unnið hérna, það fær góð meðmæli með sér út ef þær hafa unnið hér á Íslandi."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner