Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 02. maí 2022 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Furðuleg skilaboð til hópsins - „Það var eiginlega það skrítnasta við þetta"
Jón Dagur í leik með AGF í vetur.
Jón Dagur í leik með AGF í vetur.
Mynd: AGF
Það kom aldrei til greina hjá mér að segja nei og því var spjallið stutt.
Það kom aldrei til greina hjá mér að segja nei og því var spjallið stutt.
Mynd: Getty Images
Þá fann ég að það væri eitthvað skrítið í gangi
Þá fann ég að það væri eitthvað skrítið í gangi
Mynd: KSÍ
Auðvitað er ég ennþá fúll út í þá og skil ekki hvað þeir voru að gera en það er bara eins og það er
Auðvitað er ég ennþá fúll út í þá og skil ekki hvað þeir voru að gera en það er bara eins og það er
Mynd: KSÍ
Ef leikmenn í liðinu væru að sjá þetta eftir leik þá var grínið alveg farið úr þessu.
Ef leikmenn í liðinu væru að sjá þetta eftir leik þá var grínið alveg farið úr þessu.
Mynd: KSÍ
Þegar þú byrjar illa og ert að gera mikið af breytingum þá getur þetta farið eins og núna; ekki nógu vel
Þegar þú byrjar illa og ert að gera mikið af breytingum þá getur þetta farið eins og núna; ekki nógu vel
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Forgjöfin hjá Jóni hefur batnað
Forgjöfin hjá Jóni hefur batnað
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þeir voru augljóslega ekki sáttir og ef ég hefði verið í þeirra stöðu þá hefði ég ekki verið sáttur
Þeir voru augljóslega ekki sáttir og ef ég hefði verið í þeirra stöðu þá hefði ég ekki verið sáttur
Mynd: Getty Images
Ég græði ekkert á því að vera ennþá í einhverjum pirring
Ég græði ekkert á því að vera ennþá í einhverjum pirring
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var ágætt að koma aftur inn á völlinn, mjög fínt en svekkjandi að við unnum ekki. Það var gaman að spila fótbolta aftur."

Jón Dagur Þorsteinsson var mættur inn á völlinn aftur eftir tæplega tveggja mánaða veru í frystinum hjá AGF. Ákvörðun var tekin í mars að Jón Dagur myndi ekki spila meira með AGF þar sem hann væri á förum frá félaginu í sumar.

Gengi AGF hefur hins vegar verið mjög dapurt frá því sú ákvörðun var tekin, og reyndar aðeins lengur en það, og ákváðu ráðamenn AGF að kalla Jón Dag til baka í leikmannahóp liðsins til að aðstoða liðið við að bjarga sér frá falli.

AGF hefur ekki unnið leik síðan 18. febrúar og er í 10. sæti, sex stigum fyrir ofan fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Í gær lék liðið við OB og tapaði 1-0. Vejle er í 11. sætinu og SönderjyskE er í 12. sætinu með tveimur stigum færra en Vejle.

Jón Dagur er 23 ára vængmaður sem hefur verið hjá AGF síðan 2019 og ræddi hann við Fótbolta.net í dag.

Sjá einnig:
Jón Dagur kveður AGF - Þjálfaranum bannað að nota hann
Skrýtið að einn besti leikmaðurinn spili ekki - Golfsettið á „gameday"

Erfitt að hafa enga gulrót
Hvernig var þessi tími frá vellinum?

„Þetta var náttúrulega ekki gaman og skrítið. Ég bjóst engan vegin við því að þeir myndu gera þetta svona. Þetta var mikið sjokk í byrjun og svo misjafnir dagar síðan. Stundum var maður með einbeitinguna alveg stillta á að vera eins tilbúinn og hægt væri fyrir næsta tímabil en aðra daga var erfitt að fara á æfingar og hafa ekkert til að gera eftir það; enga gulrót eins og leikir eru. Ég hef aldrei lent í þessu áður og þetta var smá skrítið."

Skrítnar aðstæður
Er allt öðruvísi að æfa vitandi að það séu engar líkur á því að þú spilir á næstunni?

„Já, það er það. Þegar það er verið að undirbúa liðið fyrir leiki og maður er ekkert inn í því er allt öðruvísi en þegar maður er að spila. Maður fer á fundi þar sem maður þarf ekki að taka upplýsingarnar inn og er því kannski takmarkað að hlusta - þetta voru skrítnar aðstæður."

Tók pirringin út á þeim sem áttu það skilið
Komu upp augnablik á æfingum þar sem þú hugsaðir: „Ég er þetta góður og þeir eru í alvörunni ekki að láta mig spila"?

„Já, það var held ég líka ein af ástæðunum fyrir því að þeir kölluðu mig til baka. Þeir sáu alveg hvernig ég var að nálgast hlutina og ég myndi segja að ég hafi gert þetta af mikilli fagmennsku. Ég var 'all-in' á æfingum, var með gott hugarfar og passaði mig að vera ekki að skemma neitt fyrir öðrum á æfingu með einhverjum pirring eða slíku. Maður var ekki að taka pirringin út á fólkinu sem átti það ekki skilið. Ef maður var eitthvað pirraður þá tók maður það frekar út á þeim sem áttu það skilið frekar en mönnum sem voru að undirbúa sig fyrir leiki. Það var eitt af því sem ég passaði mig á, að láta pirringinn minn ekki koma niður á fólki sem átti það ekki skilið."

Kom aldrei til greina að segja nei
Hvernig var þetta fyrir viku síðan þegar tekin var ákvörðun um að taka þig aftur inn í hópinn?

„Þeir spurðu mig, voru kannski ekki 100% á því að ég myndi segja já. Þeir höfðu áður rætt við mig og spurt hvað þeir gætu gert til að hjálpa mér fyrir næsta tímabil. Ég sagði við þá að best væri ef þeir myndu láta mig vera, ég hafði ekkert við þá að segja og langaði ekkert að vera í einhverjum sérstökum samskiptum við þá aðila. Ég var ekki búinn að vera í samskiptum við þá og því þurfti auðvitað að taka spjall fyrir viku síðan til að ræða hlutina. Það kom aldrei til greina hjá mér að segja nei og því var spjallið stutt. Ég var alltaf með það í huganum að ég væri klár. Ég vissi að þeir myndu spyrja mig og það var búið að spyrja mig hvort ég yrði klár ef ég yrði spurður. Ég sagði já þá og viku seinna var rætt við mig og ég kom aftur inn í liðið."

Skrítin skilaboð í hópinn og tímasetningin sérstök
Þegar deildin er tvískipt og tekin ákvörðun að þú verðir ekki með - var þá ekki markmiðið hjá AGF að stefna á 7. sætið sem gefur möguleika á Evrópusæti? AGF var þá stigi á eftir Viborg. Sjöunda sætið spilar eftir tímabilið leik við liðið sem endar í þriðja eða fjórða sæti efri hlutans um hvort liðið fer í Sambandsdeildina á næsta tímabili.

„Jú, það var eiginlega það skrítnasta við þetta. Við vorum bara einu stigi frá sjöunda sætinu þegar þeir taka þessa ákvörðun. Það fannst mér skrítin skilaboð til annarra leikmanna í hópnum. Þegar ákvörðunin var tekin þá voru fjórir í banni og tveir meiddir og vinstri bakvörður að spila á kantinum. Þetta var sérstakt og líka sérstakt að búa til vesen sem þurfti ekki að vera vesen á kafla þar sem liðið var í brasi. Tímasetningin og allt það var sérstakt. Ég vissi, þegar deildinni var tvískipt, að ég yrði kannski ekki í stóru hlutverki eftir að við misstum af því að vera í efri hlutanum. Við vorum samt þá í séns á því að ná Evrópusæti og því var tímasetningin sérstök."

Samherjarnir vildu Jón Dag til baka - Tilkynntur veikur þegar hann var ekki veikur
Samherjar þínir vildu fá þig inn í hópinn. Það hefur verið gott að finna fyrir því, eða hvað?

„Jú, auðvitað var það gott. Ég er búinn að vera hérna í þrjú ár og eignast vini. Þetta kom hópnum jafnmikið á óvart og mér. Við erum ekki búnir að standa undir væntingum á tímabilinu og árangurinn vonbrigði. Fyrir þá, að það sé í rauninni verið að veikja liðið, út af einhverju sem kom þeim ekkert við - út af einhverjum samningsmálum - þetta voru sérstök skilaboð til þeirra. Þeir voru augljóslega ekki sáttir og ef ég hefði verið í þeirra stöðu þá hefði ég ekki verið sáttur. Hópurinn vildi fara í baráttuna um sjöunda sætið og reyna að enda tímabilið á góðum nótum. Svo kom þetta upp og þetta var skrítið fyrir alla."

„Þetta var byrjað áður en deildinni var tvískipt. Það voru tveir leikir eftir og þá einhvern veginn byrjar þetta. Ég var settur á bekkinn, kem ekki inn á og í kjölfarið er ég veikur í vikunni fyrir leik og þeir tilkynna mig sem veikan í leikinn þegar ég var ekkert veikur. Þá fann ég að það væri eitthvað skrítið í gangi. Svo eftir að ég kem til baka úr landsleikjunum þá er mér tilkynnt að ég verði ekki meira með. Þetta var búið að vera lengur í gangi en frá því að þetta fór að vekja athygli."


„Skil ekki hvað þeir voru að gera"
Ertu ennþá fúll út í þá sem tóku ákvörðunina um að setja þig til hliðar?

„Auðvitað var maður ekkert sáttur og er ekkert sáttur að þeir hafi dílað við þetta svona. Það er ekkert sem ég get gert og ég veit að ég græði ekkert á því að vera ennþá í einhverjum pirring. Auðvitað er ég ennþá fúll út í þá og skil ekki hvað þeir voru að gera en það er bara eins og það er."

Styrktaraðilar höfðu eitthvað látið í sér heyra út af slæmu gengi. Var þitt nafn eitthvað blandað í þá umræðu?

„Ég veit það ekki, hef ekkert fylgst með því. Ég veit ekki hvað þeir eru að rífa sig. Ég myndi halda að þetta tengist gengi liðsins. Ég veit ekki hvað þeir hafa haldið, hvort þeir hafi séð okkur alltaf í topp þremur eða hvað þeir voru að hugsa."

Tók myndina út eftir leik
Hvernig er forgjöfin? Er hún að batna?

„Hún er að batna, ég sit einmitt núna og er að fara í rástíma eftir tuttugu mínútur."

Hvernig var tekið í þessa mynd á leikdegi? Voru menn eitthvað ósáttir?

„Þeir í rauninni gátu ekkert verið ósáttir því þeir hringdu í mig daginn eftir og báðu mig um að spila - höfðu í raun ekki tíma í að vera ósáttir. Ég held að það hafi ekki komið til greina hjá þeim að vera eitthvað ósáttir þegar þeir voru að reyna 'settla' málin. Þetta var náttúrulega saklaust grín og ég tók myndina strax út þegar við töpuðum leiknum. Mér fannst það smá... ef leikmenn í liðinu væru að sjá þetta eftir leik þá var grínið alveg farið úr þessu."

Heppnir að SönderjyskE vann
AGF tapaði í gær en á sama tíma vann SönderjyskE sem hjálpar AGF í sinni baráttu.

„Auðvitað vorum við heppnir að SönderjyskE vann. Við erum eiginlega í sömu stöðu og við vorum fyrir leikinn í gær. Þetta er búið að vera ógeðslega erfitt og leiðinlegt tímabil - búið að vera þungt fyrir alla. Það er ekkert að ganga, hvorki fram á við né til baka. Við erum ekki að ná að smella saman sem lið. Það voru margar breytingar fyrir tímabilið, við misstum marga og fengum inn marga. Þegar þú byrjar illa og ert að gera mikið af breytingum þá getur þetta farið eins og núna; ekki nógu vel."

Bæði ætla sér og eiga að vinna næsta leik
Þið eruð alltaf að fara halda sætinu í deildinni, er það ekki?

„Jú, ég hugsa það nú. En auðvitað veit maður aldrei. Það eru fjórir leikir eftir og við þurfum fyrst og fremst að fara byrja vinna leiki. Við erum ekki búnir að vinna í tíu leikjum, þetta er leiðinlegt og erfitt og við þurfum að rífa okkur í gang. Við eigum SönderjyskE heima og bæði ætlum og eigum að vinna þann leik. Það er ekkert flóknara en það," sagði Jón Dagur.

Leikurinn gegn SönderjyskE fer fram næsta sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner