þri 02. ágúst 2022 10:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Huddlestone á leið til Man Utd
Tom Huddlestone.
Tom Huddlestone.
Mynd: Getty Images
Miðjumaðurinn Tom Huddlestone er við það að ganga í raðir Manchester United.

Þetta kemur fram hjá The Athletic sem er mjög áreiðanlegur miðill á Bretlandseyjum.

Hann mun sem sagt koma inn í ákveðið hlutverk hjá U21 liði Man Utd. Hann mun spila og þjálfa hjá liðinu, en hann mun líklega ekkert koma nálægt aðalliðinu.

Þetta var hlutverk sem varnarmaðurinn Paul McShane gegndi á síðustu leiktíð en pælingin er að ungir leikmenn United fái leiðsögn og þjálfun frá reyndari liðsfélaga inn á vellinum. Að hjálpa þeim að vera tilbúnari er þeir stíga upp í fullorðinsfótbolta.

Nick Cox, sem er yfir akademíu Man Utd, fannst tilraunin með McShane ganga mjög vel á síðustu leiktíð og vildi hann halda verkefninu gangandi. McShane er farinn alfarið yfir í þjálfun og því þurfti að finna eftirmann hans.

Sá maður er Huddlestone, en hann er fyrrum miðjumaður Derby, Tottenham, Wolves og Hull City. Huddlestone, sem á fjóra A-landsleiki fyrir England, lék með Hull í næst efstu deild á síðustu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner