Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, hefur verið sterklega orðaður við Norrköping í Svíþjóð undanfarnar vikur.
Í grein fotbollskanalen var talað um Óskar og Daniel Bäckström, þjálfara Sirius, sem þá tvo líklegustu til að taka starfið hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu að sér.
Tony Martinsson, yfirmaður fótboltamála hjá Norrköping, segist hafa fundað með nokkrum þjálfurum og vonast sé til þess að finnast lausn sem fyrst. Ferlið er á lokastigi að hans sögn.
Óskar sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag fyrir leik Blika gegn Istanbul Basaksehir í forkeppni Sambandsdeildarinnar á morgun.
Fréttamaður Fótbolta.net spurði hann út í sögurnar um Norrköping.
„Þið eruð allir að falla í gryfjuna á endurvinnslu, þeir eru að endurvinna gamlar fréttir held ég. Ég held að þetta séu sömu fréttir og fyrir þremur vikum. Það er ekkert að frétta þar," sagði Óskar.
Ferlið er á lokastigi. Hafa þeir ekkert heyrt í honum? „Ég hef heyrt í þeim einu sinni, en meira er það ekki. Ég veit jafnmikið um þetta og þið."
Hugurinn er hjá Breiðabliki
Ætlar hann 100 prósent að klára tímabilið með Blikum? Liðið er enn með í öllum keppnum og situr á toppnum í Bestu deildinni með gott forskot.
„Sko, það er ekkert 100 prósent í lífinu en hugur minn í dag er að þjálfa Breiðablik og ekkert annað," segir Óskar.
Óskar, sem hefur náð stórgóðum árangri með Breiðablik og Gróttu hér á landi, sagðist ekki hafa fengið símtal frá Norrköping þegar Fótbolti.net ræddi við hann fyrir um tveimur vikum síðan. Hann væri að einbeita sér alfarið að Breiðablik núna.
Norrköping er sem stendur í tólfta sæti sænsku deildarinnar með 16 stig eftir 16 leiki. Í liðinu eru þrír Íslendingar: Andri Lucas Guðjohnsen, Ari Freyr Skúlason og Arnór Sigurðsson. Mögulega er sá fjórði á leiðinni því Arnór Ingvi Traustason hefur verið sterklega orðaður við félagið.
Athugasemdir