Varnarmaðurinn Harry Maguire var bjargvættur Manchester United í Evrópudeildinni í kvöld er hann gerði jöfnunarmark liðsins í uppbótartíma í 3-3 jafnteflinu gegn Porto í Portúgal.
Maguire er ekki fastamaður í liði United en hefur nýtt tækifæri sín ágætlega.
United var manni færri og lítið eftir í kvöld er hann stangaði boltanum í netið eftir hornspyrnu Christian Eriksen.
Englendingurinn hefur trú á liðinu en segir að það verði að hætta að fá á sig 2-3 mörk í leik.
„Þegar þú kemst í 2-0 á útivelli þá verður þú að vera áreiðanlegri, því við skildum eftir of mikið af opnum plássum. Það voru of margar fyrirgjafir að koma inn í teiginn og okkur var á endanum refsað fyrir það.“
„Hverfur trúin á að við getum unnið leikinn þegar við fáum á okkur mark í stöðunni 2-0? Það er eitthvað sem við þurfum að skoða og einblína á. Þetta hefur gerst allt of oft og í hvert einasta skipti sem þú færð á þig mark þá þarftu að endurstilla og fara aftur í leikskipulagið sem kom þér í forystu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta. Ef við viljum ná árangri á þessu tímabili þá getum við ekki haldið áfram að fá á okkur tvö mörk í leik.“
Maguire sýndi þá Erik ten Hag, stjóra liðsins, stuðning, en hann segir pressu og gagnrýni hluti af þeim forréttindum að spila fyrir félag eins og United.
„Ég hef spilað fyrir þetta félag í sex ár og veit hvernig hlutirnir virka. Þegar þú ferð í gegnum slæman kafla þá kemur pressa á leikmennina og stjórann. Hann er nógu reyndur og hefur verið hjá félaginu nógu lengi, þannig ég er viss um að hann veit hvernig á að eiga við þetta. Þetta er hluti af þeim forréttindum að spila fyrir þetta félag,“ sagði Maguire.
Athugasemdir