'Hann er vakinn og sofinn núna að reyna finna lausnir og er að leggja sig fram eins og við ætlumst til af þjálfaranum okkar'
„Auðvitað eru fimm stig eftir níu leiki ekki eitthvað sem við vorum að stefna að, það er alveg morgunljóst. Við viljum meira en þetta er búið að vera dálítið stöngin út hjá okkur á tímabilinu," sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, við Fótbolta.net í dag.
Byrjunin hjá KA á tímabilinu hefur verið brött, svo ekki sé meira sagt. Liðið er í næstneðsta sæti þegar tvær umferðir eru í að deildarkeppnin verði hálfnuð. Uppskeran er einn sigur, tvö jafntefli og töpin eru sex.
Byrjunin hjá KA á tímabilinu hefur verið brött, svo ekki sé meira sagt. Liðið er í næstneðsta sæti þegar tvær umferðir eru í að deildarkeppnin verði hálfnuð. Uppskeran er einn sigur, tvö jafntefli og töpin eru sex.
„Við þurfum að leggja meira á okkur, snúa þessu við. Þessi mannskapur og þetta lið á að gera betur að okkar mati og menn verða að stíga aðeins upp. Þetta hefur ekki verið eins og við vildum og ekki eins og hópurinn vildi. Ég hef fulla trú á því að menn snúi þessu gengi við og fari nú að fá fleiri stig en við höfum fengið í síðustu leikjum."
Úr karakter
Í síðasta leik fékk KA kjaftshögg rétt eftir að hafa komist yfir og menn náðu sér ekki af því fyrr en eftir að ÍA var komið yfir.
„Þetta er búið að vera örlítið sagan okkar undanfarið, við höfum verið að leka alltof mikið af mörkum sem er óeðlilegt miðað við okkar mannskap. Við erum búnir að fá á okkur 18 mörk í síðustu sex leikjum. Það er erfitt að þurfa að gera fjögur mörk eða meira til þess að vinna. Það er mest út úr karakter hjá okkur. Þarna er ekki einum um að kenna, þetta eru einstaklingsmistök, klaufaleg mistök og hlutirnir líka að falla á móti okkur. Stundum þegar það rignir, þá hellirignir. Við erum á þeim stað núna. Það er ekkert annað að gera en að snúa bökum saman og snúa þessu við saman."
Er að leggja sig fram eins og til er ætlast af honum
Þegar illa gengur er oft horft í þjálfarann. Hallgrímur Jónasson er á sínu öðru ári sem aðalþjálfari liðsins. Er eitthvað samtal um hvort hann sé rétti maðurinn fyrir félagið?
„Það samtal var tekið fyrir tveimur árum. Við teljum hann hafa verið rétta manninn fyrir félagið. Við vissum hvað við höfum í Hadda og við hverju væri að búast. Hann, trúðu mér, er vakinn og sofinn núna að reyna finna lausnir og er að leggja sig fram eins og við ætlumst til af þjálfaranum okkar. Vonandi fer það að ganga og boltinn að falla með okkur."
Hefðu kannski átt að hrista meira upp í hlutunum
KA fékk inn þá Hans Viktor Guðmundsson og Viðar Örn Kjartansson í vetur. Auk þess hafa nokkrir yngri leikmenn fengið stærra hlutverk í hópnum.
Í aðdraganda mótsins var rætt um að hópurinn hjá KA hefði ekki verið styrktur nóg í vetur. Það umtal hefur svo bara aukist eftir erfiða byrjun.
„Auðvitað er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og hugsa þetta. Það er ekkert launungarmál að við lokuðum ákveðnum samningum síðasta haust þegar við endurnýjuðum við leikmenn í liðinu. Kannski hefðum við þurft að hrista meira upp í hlutunum þá, án þess að ég ætli þó að skella sökinni á þá leikmenn. En kannski hefði restin af hópnum haft gott af því að fá nýja innspýtingu og ný andlit í klefann til þess að hrista aðeins upp í hlutunum."
„Hópurinn sem við erum með er alveg nógu stór. En það er hægt að velta því fyrir sér hvort við hefðum mátt fjárfesta í færri og þá sterkari leikmönnum. Það er eins og gengur og gerist í fótboltanum. Við tókum ákvörðun sem félag að semja við ákveðna leikmenn og treysta á þennan hóp."
„Ég er enn á þeim stað að þessi hópur geti snúið þessu við. Það er auðvelt um að tala, nú þurfa menn að stíga upp og raunverulega snúa þessu við."
Var alltaf planið að fá inn styrkingu í glugganum
Birgir Baldvinsson og Sveinn Margeir Hauksson klára ekki tímabilið með KA. Þeir spila með KA út júlí en halda svo til Bandaríkjanna í háskólanám. Sævar segir að planið hafi verið að taka a.m.k. einn leikmann í stað þeirra tveggja.
„Það var alltaf planið (að fá styrkingu í glugganum), við vissum stöðuna hjá Svenna og Bigga. Hugmyndin var alltaf að taka í það minnsta einn mann inn í júlíglugganum erlendis frá til þess að koma í staðinn fyrir þá. Svo er bara spurning hvort það þurfi að gera eitthvað meira. Við höfum vitað frá áramótum að þetta væri staðan með þá og við sem félag styðjum þá í sínu námi. Ætlunin var alltaf að vera komnir með mann í staðinn þegar þeir fara út, það er alveg óbreytt. Við förum að líta í kringum okkur eftir landsleikjahléið, sjáum hvað verður í boði í júlíglugganum."
Eina markmiðið er að halda sætinu í deildinni
Hvað viltu sjá KA liðið gera núna á næstunni og hver er draumaniðurstaðan í haust?
„Það er ekki hægt að setja neina aðrar kröfur en að fara bara ná í sigur. Við höfum alltaf þorað að horfa meira en bara eitt ár fram í tímann, horfum 2-3 ár fram í tímann. Við vissum að það er kominn pínu tími á endurnýjun á hópnum okkar. Við hefðum kannski mátt byrja á henni hraðar eftir síðasta tímabil."
„En fyrir þennan hóp er eina markmiðið að halda sæti sínu í deildinni. Ef menn fara á eitthvað skrið þá er fótboltinn þannig að þetta getur breyst rosalega hratt, sjáum það á Stjörnunni í fyrra sem var í fallsæti eftir 6-7 umferðir og endaði í 3. sæti deildarinnar. Hlutirnir geta breyst hratt ef það kemst sjálfstraust í menn og liðið fer að vinna."
„Akkúrat í dag er holan það djúp að það er ekkert annað en að horfa í 1-2 leiki fram í tímann og reyna vinna sigur. Næst er bikarleikur og ef við vinnum hann þá erum við allt í einu komnir í undanúrslit. Það gæti verið gulrót fyrir menn að fara í eitthvað ævintýri eins og í fyrra þegar við fórum í úrslit," sagði Sævar.
Næsti leikur KA er gegn Fram á heimavelli í bikarnum. Svo á liðið leiki gegn Breiðabliki og Fram til að klára fyrri umferðina í deildarkeppninni.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 22 | 15 | 4 | 3 | 56 - 23 | +33 | 49 |
2. Breiðablik | 22 | 15 | 4 | 3 | 53 - 28 | +25 | 49 |
3. Valur | 22 | 11 | 5 | 6 | 53 - 33 | +20 | 38 |
4. ÍA | 22 | 10 | 4 | 8 | 41 - 31 | +10 | 34 |
5. Stjarnan | 22 | 10 | 4 | 8 | 40 - 35 | +5 | 34 |
6. FH | 22 | 9 | 6 | 7 | 39 - 38 | +1 | 33 |
7. Fram | 22 | 7 | 6 | 9 | 31 - 32 | -1 | 27 |
8. KA | 22 | 7 | 6 | 9 | 32 - 38 | -6 | 27 |
9. KR | 22 | 5 | 6 | 11 | 35 - 46 | -11 | 21 |
10. HK | 22 | 6 | 2 | 14 | 26 - 56 | -30 | 20 |
11. Vestri | 22 | 4 | 6 | 12 | 22 - 43 | -21 | 18 |
12. Fylkir | 22 | 4 | 5 | 13 | 26 - 51 | -25 | 17 |
Athugasemdir