Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 05. apríl 2020 20:00
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson
Lukaku: Lifi fyrir að skora mörk
Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku.
Mynd: Getty Images
Romelu Lukaku hefur fundið sig vel í ítalska boltanum eftir að hann kom til Inter frá Manchester United. Staðan á Ítalíu hefur verið og er mjög erfið vegna kórónuveirunnar en belgíski framherjinn reynir að nýta tímann núna í að skoða hvað hann hefur gert vel síðustu sex mánuðina og hvað hann getur gert betur.

Franska goðsögnin Thierry Henry heyrði í Lukaku í beinni útsendingu á Instagram reikningi PUMA. Henry þekkir nokkuð vel til Lukaku eftir að hann var aðstoðarþjálfari hjá belgíska landsliðinu.

„Við höfum það gott, reynum að sinna því af bestu getu sem við getum gert, ég er hér hlaupandi á eftir syni mínum," sagði Lukaku sem viðurkennir að staðan sé erfið.

„Þetta er auðvitað mjög erfið staða, maður saknar þess auðvitað að spila og æfa, spila fyrir framan stuðningsmennina, ég sakna þess mest. Þessa stundina er ég að skoða hvað ég hef verið að gera síðustu sex mánuðina, hvað ég þarf að halda áfram að vinna í og hverju ég get bætt við í minn leik."

„Þegar maður þroskast sem leikmaður lærir maður að það eru fleiri sem skipta máli heldur en bara maður sjálfur. Að skora mörk er það sem ég lifi fyrir en þegar maður eldist sem leikmaður fer maður að nota gáfur sínar á annan hátt, ég er enn að læra. Ef ég á að hjálpa liðinu mínu þarf ég einnig að vera fær um að leggja upp mörk, það getur ekki bara allt snúist um mig, maður verður einnig að hugsa um þá sem eru í kringum mann og að þeim líði sem að þeir séu einnig mikilvægir. Ef ég er ekki í góðu færi sjálfur mun ég alltaf að reyna leggja upp fyrir annan," sagði Romelu Lukaku.
Athugasemdir
banner
banner
banner