mán 05. júní 2023 20:21
Ívan Guðjón Baldursson
Sjö leikmenn sem fara frá Leicester eftir fall (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Leicester City féll óvænt úr ensku úrvalsdeildinni á dögunum og hefur misst nokkra lykilmenn úr sínum röðum í kjölfarið.


Leicester er búið að staðfesta brottfarir sjö leikmanna sem renna út á samningi 30. júní og eru nokkuð stór nöfn þar á meðal.

Tyrkneski miðvörðurinn Caglar Soyuncu er á leið til Atletico Madrid á frjálsri sölu á meðan belgíski miðjumaðurinn Youri Tielemans getur valið úr ýmsum valkostum. Tielemans hefur lengi verið eftirsóttur og áhugavert að fylgjast með næsta skrefi á hans ferli.

Þá eru Daniel Amartey og Nampalys Mendy einnig orðnir samningslausir, rétt eins og Ayoze Perez sem varði leiktíðinni á láni hjá Real Betis á Spáni.

Tete, lánsmaður frá Lyon, snýr aftur til Frakklands og þá er hinn 33 ára gamli Ryan Bertrand orðinn samningslaus en hann missti af tímabilinu vegna meiðsla.

Það verður spennandi að fylgjast með enduruppbyggingu Leicester í Championship deildinni.


Athugasemdir
banner