
Brasilía lék sinn fjórða leik á HM í kvöld þegar liðið lagði Suður Kóreu af velli 4-1 í 16-liða úrslitum. Það er ljóst eftir úrslit dagsins að Brasilía mætir Króatíu í 8-liða úrslitum.
Brasilía var með öruggt sæti í 16 liða úrslitum fyrir lokaumferðina í riðlinum þegar liðið tapaði gegn Kamerún. Tite, þjálfari brasilíska liðsins leyfði sér þá að gera margar breytingar á byrjunarliðinu.
Ederson var í markinu gegn Kamerún en Alisson hefur varið markið í öllum hinum leikjunum. Hann var þó tekinn af velli undir lok leiksins í dag og Weverton kom inn á í hans stað.
Það lítur út fyrir að skiptingin hafi aðeins verið gerð til þess að allir leikmenn liðsins fái tækifæri til að spila en Weverton var sá eini í hópnum fyrir leikinn í kvöld sem hafði ekki spilað leik á mótinu til þessa.