Tilboð væntanlegt í Ederson - Man Utd hefur rætt við Frank og Pochettino - Frank, Maresca, McKenna og De Zerbi á blaði Chelsea
   mið 06. janúar 2021 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Breytt mataræði, fyrirmyndir og Rosengård - „Finnst ég vera klár í næsta skref"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mér finnst ég vera klár í næsta skref og ég veit af áhuga frá einhverjum liðum en hvað gerist næsta árið eða svo verður bara að koma í ljós.
Mér finnst ég vera klár í næsta skref og ég veit af áhuga frá einhverjum liðum en hvað gerist næsta árið eða svo verður bara að koma í ljós.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er gríðarlega mikill heiður, finnst mér, að hafa verið á þeim lista annað árið í röð.
Það er gríðarlega mikill heiður, finnst mér, að hafa verið á þeim lista annað árið í röð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klúbburinn setur sér alltaf háleit markmið á hverju ári og allt annað en gull eru bara vonbrigði og það er þannig umhverfi sem ég vil vera í
Klúbburinn setur sér alltaf háleit markmið á hverju ári og allt annað en gull eru bara vonbrigði og það er þannig umhverfi sem ég vil vera í
Mynd: Glódís Perla Viggósdóttir
Þetta gerir það að verkum að fyrirmyndir eru sýnilegri og ungar íslenskar stelpur sjái fyrirmyndirnar sínar oftar og geti látið sig dreyma stórt
Þetta gerir það að verkum að fyrirmyndir eru sýnilegri og ungar íslenskar stelpur sjái fyrirmyndirnar sínar oftar og geti látið sig dreyma stórt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þurfum að vera klárar að fara á EM, ekki sem litla Ísland, heldur til að ná í úrslit.
Þurfum að vera klárar að fara á EM, ekki sem litla Ísland, heldur til að ná í úrslit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég hafði ótrúlega gott af því að skoða hvaða næringu ég var að borða og aðallega læra það að ég var ekki að borða nóg.
Ég hafði ótrúlega gott af því að skoða hvaða næringu ég var að borða og aðallega læra það að ég var ekki að borða nóg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér finnst ég vera klár í næsta skref og ég veit af áhuga frá einhverjum liðum en hvað gerist næsta árið eða svo verður bara að koma í ljós."

Glódís Perla Viggósdóttir var að ljúka sinni þriðju heilu leiktíð með Rosengård í síðasta mánuði. Glódís er 25 ára varnarmaður en hún gekk í raðir sænska félagsins um mitt sumarið 2017 og lék það ár hálfa leiktíð í Svíþjóð.

Rosengård endaði í 2. sæti deildarinnar eftir að hafa unnið titilinn á tímabilinu á undan. Glódís ræddi um liðið tímabil í Svíþjóð sem og kvennalandsliðið í spjalli við Fótbolta.net.

Allt annað en gull eru vonbrigði
Hvernig var liðið tímabil þegar Glódís horfir til baka á það, vonbrigði að vinna ekki titilinn?

„Bæði ég persónulega og við sem lið fórum inn í tímabilið með klárt markmið sem var að halda titlinum í Malmö þannig það voru auðvitað vonbrigði þegar við náðum ekki því. Klúbburinn setur sér alltaf háleit markmið á hverju ári og allt annað en gull eru bara vonbrigði og það er þannig umhverfi sem ég vil vera í," sagði Glódís.

„Mestu vonbrigðin fannst mér vera að við náðum ekki að halda nægilega góðum „standard“ yfir allt tímabilið. Það var of langt á milli hæðsta og lægsta standard hjá liðinu. Áttum leiki þar sem við vorum gjörsamlega frábærar og rúlluðum yfir lið í kringum okkur í töflunni og áttum svo leiki þar sem við vorum hreinlega ekki nógu góðar og töpuðum of mörgum stigum sem við hefðum ekki átt að tapa. Þetta er eitthvað sem við þurfum klárlega að vinna með fyrir næsta tímabil."

Algjör lykilleikmaður
Glódís lék allar mínútur í öllum leikjum í deildinni. Hún bar þá fyrirliðabandið á tímapunkti. Var mikill heiður að bera fyrirliðabandið?

„Ég er mjög glöð að hafa farið í gegnum tímabilið og geta spilað allar mínutur. Við erum með mikið af leiðtogum og stórum karakterum í liðinu og ég er bara ein af þeim og nýt mín mjög vel í því hlutverki og auðvitað mikill heiður að fá að vera með bandið þegar Caroline Seger getur ekki spilað."

Lært helling af þessu tímabili
Er Glódís fullkomlega sátt með þína frammistöðu á leiktíðinni?

„Ég geri miklar kröfur til mín og get ekki verið fullkomlega sátt þegar ég náði ekki stóra markmiðinu sem var að vinna gull aftur. Samt sem áður ég ágætlega sátt árið sem heild og þetta er tímabil sem ég hef lært helling af.

„Finnst ég vera klár í næsta skref"
Glódís framlengdi samning sín við Rosengård síðasta sumar. Fréttaritari spurði hana að sömu spurningu fyrir rúmu ári síðan: Verðuru áfram hjá félaginu? Veistu af áhuga á þér annars staðar frá?

„Ég er samningsbundin Rosengård eins og staðan er núna fram að EM 2022. Við erum komnar í 16-liða úrslit í Meistaradeildinni og er ég mjög spennt fyrir að sjá hvað við getum gert úti í Evrópu með þennan hóp sem við erum með núna."

„Mér finnst ég vera klár í næsta skref og ég veit af áhuga frá einhverjum liðum en hvað gerist næsta árið eða svo verður bara að koma í ljós. Akkúrat núna er allur fókusinn á að byrja undirbúning með Rosengård fyrir Meistaradeildina sem er í lok febrúar og svo deildina sem byrjar í apríl."


Ef þú verður áfram á þá að aflétta bikarbölvuninni og vinna tvöfalt á næsta ári?

„Ekki spurning, ekkert annað í boði."

Ungar íslenskar stelpur geta fylgst betur með fyrirmyndum sínum
Stöð 2 Sport ákvað á síðasta ári að sýna frá sænsku kvennnadeildinni. Finnur Glódís fyrir auknum áhuga Íslendinga á deildinni og hefur það áhrif að vita að fleiri Íslendingar geti fylgst með?

„Mér finnst það frábært framtak hjá Stöð 2 og eiga þau allt hrós skilið. Það var rosalega gaman að fleiri gátu fylgst með og séð hvernig deildin hérna úti væri. Þetta er líka bara gríðarlega mikilvægt fyrir kvennaboltann að fá meiri sýnileika og samhliða þessu er Heimavöllurinn, og þær sem sjá um hann, búnar að vera með frábæra og mikla umfjöllun um allan kvennabolta allt árið."

„Þetta gerir það að verkum að fyrirmyndir eru sýnilegri og ungar íslenskar stelpur sjái fyrirmyndirnar sínar oftar og geti látið sig dreyma stórt."


Reyndi meira á andlega heldur en mörg önnur ár
Hvernig hefur verið að lifa eftir Covid-reglunum í Svíþjóð og að spila í þeim aðstæðum?

„Þetta er búið að vera ótrúlega skrítið ár á marga vegu, fyrir alla bara. Reglurnar í Svíþjóð voru nánast engar og mest tilmæli. Þannig við gátum æft allt undirbúningstímabilið án takmarkanna en deildinni var frestað til lok júní þannig við spiluðum mjög þétt í byrjun og án áhorfenda allt tímabilið."

„Við fengum þó smit inn í hópinn en reglurnar voru einfaldlega þannig að engin fór í sóttkví né einangrun nema leikmaðurinn sem fékk veiruna þannig við misstum einhverja leikmenn út á tímabili en aldrei meira en eina í einu. Mjög skrítið ár sem reyndi meira á andlega heldur en mörg önnur ár en ég er mjög þakklát fyrir að við gátum æft og spilað þrátt fyrir erfiða stöðu í heiminum.


„Við allar ætlum að fara til Englands til að gera eitthvað"
Kvennalandsliðið tryggði sig inn á sitt fjórða Evrópumeistaramót í röð. Ef Glódís tekur þátt þá verður þetta hennar þriðja sem hluti af liðinu. Er rosalega sætt að hafa komist inn í lokamótið án þess að þurfa fara í gegnum umspil?

„Ótrúlega sætt að hafa klárað þetta og vera komnar beint inn. Við erum með flottan hóp af leikmönnum og þurfum að nýta þetta eina og hálfa ár sem við höfum til að samstilla okkur enn betur, búa til skýrt leikplan og vera klárar að fara á EM, ekki sem litla Ísland, heldur til að ná í úrslit. Eins og þú segir þá verður þetta vonandi þriðja Evrópumótið sem ég tek þátt í og ég og við allar ætlum að fara til Englands til að gera eitthvað. Framtíðin er mjög björt."

Kitlar að skrá sig í mastersnám
Að lífinu utan vallar: Er Glódís í námi meðfram fótboltanum?

„Ég kláraði BA í sálfræði sumarið 2018 og skráði mig svo í einkaþjálfaranám hjá Keili þar sem ég útskrifaðist sem einkaþjálfari seinustu jól, 2019. Ég er ekki í námi eins og er en kitlar smá að skrá mig í mastersnám í nánustu framtíð."

Fann fyrir ótrúlegum orkumun, bæði í leikjum og á æfingum
Fréttaritari tók í haust eftir því að Glódís var þá hluti af ITS-hópnum þar sem farið er djúpt í mataræðispælingar. Finnur Glódís fyrir miklum breytingum eftir að hún fylgdist nánar með því hvað, og hversu mikið, það er sem hún borðar?

„Ég hafði ótrúlega gott af því að skoða hvaða næringu ég var að borða og aðallega læra það að ég var ekki að borða nóg. Þegar ég fór að passa ég væri að borða nóg og í réttari hlutföllum þá fann ég ótrúlegan orkumun á mér á æfingum og í leikjum og endurheimtin varð auðveldari sem var ótrúlega gaman. Ég vigta ekki lengur allan mat heldur er ég bara búin að læra betur inná hvað ég þarf og hvenær og hversu mikið."

Gríðarlega mikill heiður
Að lokum: Glódís endaði í sjötta sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins á liðnu ári. Er það mikill heiður og er markmið að komast ofar í því kjöri?

„Það er gríðarlega mikill heiður, finnst mér, að hafa verið á þeim lista annað árið í röð. Þetta er kannski ekki beint markmið heldur væri bara ótrúlega gaman að hafa náð nægilega miklum árangri til að mögulega fá þá viðurkenningu einhvern daginn," sagði Glódís að lokum.

Viðtal við Glódísi eftir tímabilið 2019:
Glódís Perla: Gaman að ná loksins gullinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner