Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   mán 06. maí 2024 20:58
Brynjar Ingi Erluson
England: Stærsta tap tímabilsins hjá Man Utd
Leikmenn United voru eðlilega vonsviknir með stöðuna
Leikmenn United voru eðlilega vonsviknir með stöðuna
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Michael Olise var geggjaður
Michael Olise var geggjaður
Mynd: Getty Images
Crystal Palace 4 - 0 Manchester Utd
1-0 Michael Olise ('12 )
2-0 Jean-Philippe Mateta ('40 )
3-0 Tyrick Mitchell ('58 )
4-0 Michael Olise ('66 )

Crystal Palace vann 4-0 stórsigur á Manchester United í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Selhurst Park í kvöld. Þetta er stærsta tap tímabilsins hjá Man Utd.

Heimamenn fóru vel af stað. Michael Olise, sem hefur verið orðaður við United síðustu vikur, skoraði fyrsta markið eftir frábært einstaklingsframtak.

Olise fékk boltann við miðsvæðið, hristi Christian Eriksen af sér áður en hann tók skemmtilega gabbhreyfingu á Casemiro. Franski U21 árs leikmaðurinn skildi Brasilíumanninn eftir í ryki áður en hann hljóp upp að teignum og setti boltann í hornið.

Mark var dæmt af United á 27. mínútu. Casemiro stangaði boltinn yfir Dean Henderson eftir hornspyrnu. Rasmus Höjlund fór upp að Henderson og stökk upp í boltann með honum, en hvorugur þeirra náði snertingu á boltann sem endaði í netinu.

Dómari leiksins dæmdi aukaspyrnu á Höjlund, þó það hafi ekki verið mikil snerting.

Annað mark Palace kom á 40. mínútu. Jean-Philippe Mateta fékk boltann, kom á ferðinni í átt að Jonny Evans. Norður-írski varnarmaðurinn leyfði honum að hlaupa auðveldlega fram hjá sér áður en hann skoraði örugglega.

United kom boltanum aftur í netið snemma í þeim síðari og aftur var það Casemiro eftir aukaspyrnu Christian Eriksen. Í þetta sinn var markið dæmt af vegna rangstöðu. Rétt niðurstaða.

Fimm mínútum síðar skoraði Palace þriðja markið. Evans náði ekki að hreinsa boltanum nógu langt frá marki. Adam Wharton kom með fyrirgjöfina inn í teiginn á Joachim Andersen sem náði einhvern veginn að pota honum til Tyrick Mitchell sem lagði boltann í netið af stuttu færi.

Palace-menn voru ekki hættir. Daniel Munoz tók boltann auðveldlega af Casemiro við endalínuna, lagði hann niður á Olise sem skoraði með frábæru skoti við vítateigslínuna. Casemiro að eiga ömurlegan leik í vörninni og var hann nálægt því að gefa Palace annað mark undir lokin er hann tapaði boltanum. Odsonne Edouard tók skotið en boltinn í stöngina.

Sannfærandi 4-0 sigur Palace staðreynd og um leið stærsta tap United á tímabilinu. Man Utd er í 8. sæti með 54 stig en Palace í 14. sæti með 43 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner