lau 06. ágúst 2022 11:40
Aksentije Milisic
Wijnaldum: Salah talaði mjög vel um Roma
Mynd: Heimasíða Roma

AS Roma heldur áfram að styrkja sig fyrir tímabilið í Serie A deildinni á Ítalíu en nýjasti leikmaðurinn er Hollendingurinn Gini Wijnaldum.


Wijnaldum kemur til Roma frá PSG í Frakklandi en hann kemur á láni í eitt tímabil. Margir spá því að Roma verði í baráttunni á meðal fjögurra efstu liða á Ítalíu en liðið hefur fengið Paulo Dybala, Nemanja Matic, Mehmet Celik og Gini Wijnaldum svo eitthvað sé nefnt.

„Ég er búinn að vera í sambandi við Roma í nokkar vikur. Undanfarið hef ég reynt að fá upplýsingar um félagið frá fyrrum leikmönnum, ég vildi aðeins heyra hvernig umhverfið þarna væri,” sagði Wijnaldum.

„Allir sem ég talaði við töluðu mjög fallega um félagið. Ég var heillaður áður en ég kom hingað. Liðið vildi mikið fá mig og það gefur mér sjálfstraust. Ég mætti á flugvöllinn og þar voru strax mættir stuðningsmenn til að taka á móti mér.”

Wijnaldum talaði við gamlan félaga en hann heyrði í Mohamed Salah, leikmanni Liverpool, en Salah lék með Roma á árunum 2015-2017.

„Ég talaði fyrst við Mohamed Salah og Kevin Strootman. Þeir töluðu mjög vel um Roma og þá fyrst fór ég alvarlega að íhuga að ganga til liðs við liðið.”

„Ég talaði við Jose Mourinho og hann sagði réttu hlutina við mig. Allir þekkja Mourinho sem þjálfara. Ég talaði við leikmenn sem hafa unnið undir hans stjórn og þeir töluðu frábærlega um hann. Þetta var auðveld ákvörðun.”


Athugasemdir
banner
banner
banner