
Í kvöld kemur það í ljós hvaða liði Ísland mætir í umspilinu fyrir HM sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.
Portúgal og Belgía eigast við á Estádio Do Vizela í Portúgal í kvöld. Sigurliðið fer áfram á næsta stig umspilsins þar sem Ísland bíður. Sá leikur fer fram 11. október og verður annað hvort spilaður í Belgíu eða Portúgal.
Ísland þarf bara að spila einn leik eins og staðan er núna, og með sigri í venjulegum leiktíma eða framlengingu þá förum við á HM. Ef leikurinn ræðst í vítaspyrnukeppni og Ísland fer áfram þá gætum við lent í umspili í Nýja-Sjálandi í febrúar á næsta ári.
Það má með sanni segja að íslenska liðið hafi verið óheppið þegar dregið var. Þetta var erfiðasti mögulegi drátturinn sem við gátum fengið.
Ísland er hæst skrifaða liðið í umspilinu, en það lið sem kemur næst þar á eftir er Belgía sem er í 19. sæti heimslistans. Ísland er í 14. sæti listans.
Belgía er sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn í kvöld, en Portúgal er í 27. sæti heimslistans.
Ísland spilaði við Belgíu á EM í sumar og endaði sá leikur með 1-1 jafntefli. Íslenska liðið var sterkari aðilinn í þeim leik heilt yfir en hann endaði samt sem áður með jafntefli.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 17:00 og þá kemur í ljós hvaða lið verður mótherji Íslands í einum stærsta leik sem kvennalandsliðið hefur spilað í sinni sögu. Ísland er að berjast um það að komast á HM, stærsta svið fótboltans, í fyrsta sinn.
Athugasemdir