Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 07. september 2020 10:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Árni sá fokkmerki og hnefa beinast að sér á Wembley - „Held ég hafi ekki verið hræddari á ævinni"
Stuðningsmaður Southampton - Árni Þór Hallgrímsson
Árni ásamt Danny Ings á liðnu tímabili. Ings skoraði sigurmarkið fyrr um daginn sem myndin var tekin.
Árni ásamt Danny Ings á liðnu tímabili. Ings skoraði sigurmarkið fyrr um daginn sem myndin var tekin.
Mynd: ÁÞH
Árni og Matt Le Tissier.
Árni og Matt Le Tissier.
Mynd: ÁÞH
Höjbjerg er farinn.
Höjbjerg er farinn.
Mynd: Getty Images
Danny Ings.
Danny Ings.
Mynd: Getty Images
Gabbiadini skorar og Árni fagnar.
Gabbiadini skorar og Árni fagnar.
Mynd: Getty Images
Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk.
Mynd: Getty Images
James Ward-Prowse
James Ward-Prowse
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Southampton er spáð 10. sæti deildarinnar.

Ólympíufarinn Árni Þór Hallgrímsson, badimintonkempa, er mikill stuðningsmaður Southampton og hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Southampton af því að... Frændi minn var í námi í Southampton. Það var um 1980, þannig vissi ég af borginni og félaginu með. Þeir koma upp í efstu deild á þessum árum 79/80 og kaupa gamla og góða s.s. Peter Shilton og Kevin Keegan. Frændi sendi mig til Southampton þegar ég var 15 ára og fór á nokkra leiki það ár, 83/84 þegar liðið endaði í 2. sæti sem er besti árangur félagsins. Þá vorum við með gamla rebba á borð við Steve Moran og David Armstrong.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er?
Tímabilið byrjaði nokkuð illa og svo kom 0-9 tapið á heimavelli gegn Leicester. Þá var staðan ansi slæm og ég bjóst við að þjálfarinn yrði rekinn en svo varð ekki. Eftir þetta varð tímabilið mjög gott. Góð jólatjörn og eftir Covid-hlé tapaðist bara einn leikur, góður endir á tímabilinu.

Maður hefði viljað fá einn eða tvo sterka miðjumenn þar sem Höjbjerg er farinn. Stjórinn er búinn að ákveða hverjir eru hans menn og hann hefur látið aðra fara. Við fengum inn stóran miðvörð til að spila með Jack Stephens og Bednarek. Che Adams var lengi í gang en má halda sínu gengi áfram á nýrri leiktíð. Ég er bjartsýnn að allt verði í lagi og við byrjum á fyrsta markmiði sem er að falla ekki.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila?
Ég er farinn að nálgast 20 leiki. Um jólin fór ég á þrjá heimaleiki og einn bikarleik. Við unnum Chelsea úti og Tottenham heima - jafntefli við Crystal Palace. Ég hef alltaf farið annars slagið. Svo hef ég farið á tvo bikarúrslitaleiki, gegn Man Utd í deildarbikar og gegn Arsenal í FA 2003. Maður varð að fara fyrst félagið var komið í úrslit því ekki eru miklar líkur á Englandsmeistaratitill.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Danny Ings
Það er ekki hægt að segja annað. Hann er uppáhalds og langbestur í þessu liði - átti afburðartímabil.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við?
Yan Valery - hægri bakvörðurinn. Hann kom frábærlega inn 17 eða 18 ára en síðan hefur verið hræðilegt að hafa hann inn á - ekki getað blautan.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur?
Ætli það sé ekki Will Smallbone úr akademíunni sem samið var við og er að koma inn í miðjuna.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Ég myndi vilja fá Virgil van Dijk til baka. Hann gerði sjö ára samning og fór eftir hálft ár. Hann talaði um hollustu við félagið rétt áður en hann fór og eftir að hann fór rifjaði Tissier ummælin upp - svolítið fyndið.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Já það er ekki hægt að vera annað en það. Hann breytti liðinu í að sækja og pressa. Fyrri stjórar voru meira í að pakka í vörn, grútleiðinlegt áhorfs. Nú erum við með gott pressulið og Ings skoraði mörg ódýr mörk þar sem boltinn var hirtur framarlega á vellinum. Ralph er fljótur að ákveða hverja hann vill nota og vinsar hina úr liðin. Þetta er lið þar sem það eru ekki margir menn í hverri stöðu og ekki hægt að hafa dýra farþega í hópnum.

Hvernig var líðanin þegar Leicester vann 0-9?
Við vorum búin að ákveða það fyrir þennan leik að þegar Leicester leikurinn væri búinn þá ætluðum við að hittast heima og kaup flugmiða til Englands á jólaleikina. Við settumst niður eftir 0-9 og hugsuðum hvort við ættum í alvöru að eyða peningum í þetta. Verður þetta bara þannig að þeir verða neðstir og allt vonlaust, ekkert gaman ef við færum. Við svo fórum og ferðin var glæsileg.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og felaginu?
Það situr í manni ennþá þegar við fórum á úrslitaleik Manchester United og Southampton í deildarbikarnum. Ég var búinn að bjóða dætrum mínum tveimur og þegar við kíktum á miðaverðið þá kom í ljós að miðarnir voru 20 þúsundum ódýrari Manchester United megin. Það endaði með því að ég keypti þrjá miða þeim megin. Við vorum alls fjögur saman.
Þegar við förum á Wembley þá löbbum við að United innganginum og þá erum við stöðvuð og spurð: 'Bíddu hvað, hvað eruð þið að gera hér? Þú ert í Southampton úlpu. Þú getur ekki verið hér.' Ég sagði að ég hefði ekki fengið miða hinu megin og við vorum tekin afsíðis í eitthvað security herbergi.
Málinu var lent þannig að ég og félagi minn fórum í úlpurnar öfugar, vorum bara úthverfir og ég í Southampton bolnum undir. Við fórum þannig inn og öryggisvörðurinn sagði að þetta væri ekki á þeirra ábyrgð: 'Þetta er stórhættulegt'. Ég trúði því nú varla og við fórum upp í stúku.
Eftir sex eða sjö mínútur skoraði Gabbiadini rangstöðumark og ég náttúrulega stökk á fætur og þá stóð ég upp einn. Ég lýg því ekki að ég held ég hafi ekki verið hræddari á ævinni. Það var haugur af strákum fyrir aftan mig og það var svoleiðis blótað og einn lamdi aðeins í bakið á mig. Ég leit við og það voru bara hnefar og fokkmerki, við fölnuðum öll fjögur, alveg svakalegt. Við horfðum á það sem eftir lifði leiksins sem stuðningsmenn United og stóðum upp þegar United skoraði. Þegar Southampton skoraði þá sagði ég ekki orð. Ég leit stundum við og ef ég sneri mér við þá voru mörg augu á mér. Ég hafði þá tilfinningu að allir væru að glápa á mann og fylgjast með manni. Þegar Zlatan skoraði og uppbótartíminn byrjaður þá fórum við svo við þyrftum ekki að vera samferða neinum af þessum út af vellinum. Þegar ég hugsa um að fara út á leik þá kemur þessi minning fyrst upp, þessi ótti og hræðsla - þetta var alveg lýgilegur fjandi.

Skoðun á James Ward-Prowse - fyrirliða liðsins?
Hann er ekki sama buffið og Höjbjerg var - sem fyrirliðatýpan. Hann er ekki jafn áberandi sem leiðtogi á velli. Southampton menn þó fýla þessa uppöldu pælingu. Ég persónulega hefði ekkert á móti því ef það væri Bednarek, Romeu eða einhver annar væri fyrirliði - einhver sem ber menn áfram.

Í hvaða sæti mun Southampton enda á tímabilinu? Upp um þrjú sæti frá síðasta tímabili. 8. sætið væri frábært.
Athugasemdir
banner
banner