Meiðslalisti Tottenham er orðinn ansi langur en Rodrigo Bentancur bættist inn á hann í kvöld þegar hann þurfti að fara af velli gegn Liverpool í deildabikarnum.
Bentancur meiddist snemma leiks en hann reyndi að skalla boltann og lenti með höfuðið á undan og lá hreyfingalaus eftir. Sjúkralið var fljótt inn á völlinn og hugði að honum.
Hann settist fljótlega upp en hann fékk aðhlynningu í dágóðan tíma áður en hann var borinn af velli. Honum var gefið súrefni á leið af velli.
Brennan Johnson kom inn á í hans stað en staðan er markalaus eftir hálftíma leik.
Guglielmo Vicario, Mickey van de Ven, Cristian Romero, Richarlison, Destiny Udogie eru meðal leikmanna sem eru á meiðslalistanum og þá er James Maddison í banni í kvöld.
Þá meiddist Jarell Quansah hjá Liverpool og Wataru Endo kom inn á í hans stað.