Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 08. febrúar 2023 12:00
Elvar Geir Magnússon
Biðjast afsökunar á að hafa fengið Goodwillie
David Goodwillie.
David Goodwillie.
Mynd: Getty Images
Enska utandeildarfélagið Radcliffe FC hefur beðist afsökunar á þeim mistökum, eins og það er orðað, að hafa samið við skoska sóknarmanninn David Goodwillie.

Goodwillie er með dóm fyrir kynferðisbrot sem átti sér stað 2011.

Goodwillie var ákærður fyrir nauðgun, ásamt öðrum fótboltamanni sem heitir David Robertson. Denise Clair, sem samþykkti að koma fram undir nafni, fékk 100 þúsund pund í skaðabætur en Goodwillie og Robertson voru dæmdir 2016 fyrir að hafa nauðgað henni eftir að þau hittust á skemmtikvöldi. Þeir neituðu sök og áfrýjuðu en áfrýjunin var ekki tekin til greina.

Radcliffe, sem er á Manchester svæðinu og spilar í sjöundu efstu deild, tilkynnti ekki þegar félagið samdi við Goodwillie. Hann var hinsvegar í byrjunliðinu gegn Belper Town í gær og skoraði þrennu í 4-2 sigri.

Þegar nafn Goodwillie birtist á leikskýrslunni myndaðist mikil reiði á samfélagsmiðlum. Radcliffe hefur nú tilkynnt að samningi hans hafi verið rift.

„Við getum staðfest að David Goodwillie hefur yfirgefið félagið Sem félag höfum við alltaf staðið fyrir því að menn fái annað tækifæri, í leikmanna- og starfsmannahópnum hafa verið ýmsir menn sem hafa tekist á við ýmislegt í lífinu. Við höfum gefið fólki tækifæri til að bæta líf sitt og fá stuðning til þess," segir í tilkynningu.

„Þegar David Goodwillie bauðst var horft til þess en í þessu tilfelli var klárlega um mistök að ræða. Það hefði þurft að hugsa þetta mál mun betur áður en ákvörðun var tekin. Sem vaxandi félag í okkar samfélagi greum við okkur grein fyrir okkar ábyrgð og biðjumst afsökunar. Þetta voru mistök sem munu ekki endurtaka sig."

Goodwillie er 33 ára og hefur verið að reyna að endurvekja fótboltaferil sinn. Hann kemur þó alls staðar að lokuðum dyrum. Á ferilskrá sinni er hann með þrjá landsleiki fyrir Skotland. Hann spilaði meðal annars fyrir Dundee United, Blackburn Rovers og Aberdeen.

Í september síðastliðnum gekk hann í raðir Rait Rovers en yfirgaf félagið eftir mikla reiði frá stuðningsmönnum liðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner