Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   lau 08. júní 2024 08:54
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Aukaleikarar sem öllum var sama um stálu sýningunni
Elvar Geir skrifar frá London
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Ísland vann verðskuldaðan sigur á Wembley.
Ísland vann verðskuldaðan sigur á Wembley.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sumir vinnudagar eru skemmtilegri en aðrir og dagurinn í gær fer svo sannarlega í þann flokk. Það var ekkert eðlilega gaman að vera á Wembley þegar íslenska landsliðið mætti og skemmdi partíið.

Íslandi var boðið að taka þátt í sýningu á 'heimili fótboltans' en öllum var sama um okkur gestina. Flestir áhorfendur voru mættir til að sjá hina gríðarlegu hæfileikaríku sóknarleikmenn Englendinga leika sér að Íslendingum og bjuggust við öruggum sigri.

En partíið var fljótt að súrna og þögn slö á 90 þúsund manna Wembley þegar Jón Dagur Þorsteinsson hafði skorað eftir tólf mínútna leik. Skyndilega var andrúmsloftið á þessum magnaða leikvangi eins og á bókasafninu í Gerðubergi.

Maður horfði á leikinn þróast og var í raun aldrei eitthvað hræddur um Englendingar væru að fara að jafna leikinn. Ekki ósvipuð tilfinningunni sem maður fékk í Hreiðrinu í Nice 2016. Áran var einhvern veginn þannig og ég held að leikmenn hafi líka fundið þessa tilfinningu.

Það var vandræðalegt að sjá Gareth Southgate labba um völlinn ásamt leikmönnum sínum með leikvanginn nánast tóman og klappa á meðan 'Next Stop Euro 2024!' stóð á risaskjám vallarins. Þetta var ekki handritið. Svona átti kveðjustundin ekki að vera.

Í aðdraganda leiksins var ljóst að öllum hér á Englandi var sama um íslenska landsliðið. Það var nánast ekkert fjallað um það í blöðunum, ekki minnst orði á Ísland á fréttamannafundi Englendinga og á okkar fréttamannafundi var bara einn breskur fréttamaður mættur til að spyrja spurninga.

En það voru aukaleikararnir sem stálu sviðsljósinu með afskaplega verðskulduðum sigri og enskir kollegar mínir voru sveittir í vinnuaðstöðu fjölmiðlamanna eftir leikinn. Síður sem þeir ætluðu að fylla af dýrðarljóma voru skyndilega lagðar undir upptalningu á öllum þeim áhyggjuefnum sem voru afhjúpuð af Íslandi.

Skyndilega eru mun færri sem trúa því að fótboltinn komi heim í sumar.
Athugasemdir
banner
banner