Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 08. nóvember 2012 15:00
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Múrari markahæstur í Championship
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Charlie Austin.
Charlie Austin.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Charlie Austin, framherji Burnley, hefur farið á kostum í ensku Championship deildinni á þessu tímabili. Austin er markahæsti leikmaðurinn í deildinni með 16 mörk í 14 leikjum en hann hefur skorað samtals 20 mörk í öllum keppnum.

Þessi 23 ára gamli leikmaður á hins vegar allt annan feril í fótboltanum en flestir atvinnumenn á Englandi því þegar hann var tvítugur starfaði hann sem múrari og atvinnumennskan virtist vera fjarlægur draumur.

Þegar Austin var fimmtán ára ákvað Reading að bjóða honum ekki áframhaldandi samning í unglingaliðinu þar sem hann þótti vera of smávaxinn. Það er ákvörðun sem félagið sér eftir í dag.

Úr múraranum í atvinnumennsku:
Eftir vonbrigðin hjá Reading spilaði Austin í sunnudagsdeildum á Englandi með AFC Newbury, Thatcham Town, Kintbury Rangers og heimaliði sínu Hungerford Town. Árið 2007 gekk Austin síðan til liðs við Poole Town FC sem leikur í utandeild sem jafngildir áttundu efstu deild á Englandi.

Samhliða því að leika með Poole vann Austin sem múrari hjá föður sínum. Hann múraði á daginn og æfði síðan á kvöldin með Poole Town. Árið 2009 fóru hjólin hins vegar að snúast hjá leikmanninum.

Austin skoraði 48 mörk í 42 leikjum með Poole Town og Bournemouth sýndi honum áhuga. Bournemouth mátti hins vegar ekki kaupa leikmenn þar sem félagið var í félagaskiptabanni og þá kom Swindon Town inn í myndina.

Danny Wilson, stjóri Swindon, kíkti á leik með Austin og sá hann skora tvö mörk. Í kjölfarið bauð hann Austin samning og draumur leikmannsins rættist, hann var orðinn atvinnumaður í fótbolta.

Ertu viss um að þú viljir áritun?
Austin byrjaði vel í ensku C-deildinni og var fljótur að byrja að skora með Swindon. Sjálfum fannst honum það vera óraunverulegur draumur að vera orðinn atvinnumaður í fótbolta.

,,Fólk biður mig um eiginhandaráritanir núna og ég hugsa: 'Ertu viss?" sagði Austin árið 2010 þegar hann var nýgenginn í raðir Swindon.

Á síðasta tímabili skoraði hann síðan 17 mörk í 27 leikjum með Swindon áður en Burnley keypti hann á eina milljón punda.

Austin spilaði lítið með Burnley á síðasta tímabili vegna meiðsla en í ár hefur hann farið á kostum í Championship deildinni. Austin hefur skorað tuttugu mörk en hann hefur ekki sett nein markmið varðandi markaskorun.

,,Ég hef ekkert markmið. Ég held bara áfram að leggja hart að mér á æfingum og ná því besta fram í leikjum," sagði Austin hógvær eftir að hann skoraði sigurmark Burnley gegn Leeds í fyrrakvöld.

Miðað við ótrúlegan uppgang Austin undanfarin ár er ekki ólíklegt að hann muni spila í ensku úrvalsdeildinni innan tíðar. Arsenal, Liverpool, Aston Villa, Newcastle og Reading eru á meðal félaga sem fylgjast vel með Austin og hver veit nema hann nái ennþá lengra í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá myndband af nokkrum mörkum Austin.


Athugasemdir
banner
banner
banner