Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 10. júní 2020 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Páll: Ég er ekki að reyna að fara í stígvélin hans
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 7. sæti - Víkingur Ó.
Jón Páll var ráðinn til Ólafsvíkur.
Jón Páll var ráðinn til Ólafsvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Páll hefur undanfarin ár þjálfað í Noregi, en er nú mættur aftur til landsins.
Jón Páll hefur undanfarin ár þjálfað í Noregi, en er nú mættur aftur til landsins.
Mynd: Víkingur Ólafsvík
Ejub Purisevic hætti með Ólafsvík eftir síðasta sumar. 'Ég er ekki að reyna að fara í stígvélin hans,' segir Jón Páll.
Ejub Purisevic hætti með Ólafsvík eftir síðasta sumar. 'Ég er ekki að reyna að fara í stígvélin hans,' segir Jón Páll.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfari Ólsara segist vera kominn með mjög gott lið.
Þjálfari Ólsara segist vera kominn með mjög gott lið.
Mynd: @vikingurol
Úr leik ÍA og Ólafsvíkur fyrir tveimur árum.
Úr leik ÍA og Ólafsvíkur fyrir tveimur árum.
Mynd: Ingunn Hallgrímsdóttir
Gaman verður að fylgjast með Jóni og hans lærisveinum í sumar.
Gaman verður að fylgjast með Jóni og hans lærisveinum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Páll Pálmason er kominn heim frá Noregi og hefur hann tekið að sér það verkefni að stýra Víkingi Ólafsvík í Lengjudeildinni í sumar. Ólsurum er spáð sjöunda sæti deildarinnar.

„Lífið á Ólafsvík er mjög gott. Ég þarf alla vega ekki að bíða í einhverri umferðarteppu," segir Jón Páll hress. „Spáin kemur mér ekki sérstaklega á óvart. Það er ekki eins og við höfum verið að ríða einhverjum risa hesti á þessu undirbúningstímabili."

„Ég veit lítið um Magna Grenivík og Leikni Fáskrúðsfirði, fyrir utan það að Binni er að þjálfa Leikni og hann er búinn að sanna það margoft að hann kann að setja saman gott lið og ég hef enga trú á að öðru en að þeir verði með gott lið. Ég veit lítið um Magna, en ég reikna með að þeir verði með sterkt lið. Öll hin lið deildarinnar eru góð. Ég er eitthvað búinn að sjá af leikjum og mér finnst þetta allt öflug lið með góða leikmenn og mikið af góðum þjálfurum. Þetta verður þannig deild að það verður erfitt að giska á úrslitin í þessu," segir Jón Páll.

„Deildin er eins og hún er og undirbúningstímabilið er búið að vera þannig að erfitt er að rýna í það. Við hugsum bara um rassgatið á sjálfum okkur og við erum búnir að búa til mjög gott lið, við erum með frábært lið. Ég sagði í vetur að við yrðum með mjög gott lið, og við erum með mjög gott lið. Hvaða sæti okkur er spáð, mér gæti eiginlega ekki verið meira sama. Við erum með fulla einbeitingu á okkur sjálfa."

Jón Páll var ráðinn þjálfari á ÓIafsvík í lok október á síðasta ári. Úrslitin á undirbúningstímabilinu fyrir kórónuveirufaraldurinn voru hreint út sagt ekki góð eins og hann bendir sjálfur á. Þegar hann er spurður hvort liðið hafi bætt sig frá því hann tók við hlær og hann segir: „Já, mér finnst það. Mér finnst það hafa bætt sig geðveikt mikið. Það er ekki af því að ég er með einhvern töfrasprota. Þegar ég kem í janúar eru rosalega fáir leikmenn hérna og við áttum í vandræðum með að stilla upp í tvö lið á æfingum. Það er bara þannig að það eru að tínast inn strákar og það er klárlega búið bætast við liðið frá því að ég kom."

Eftir síðustu leiktíð hætti Ejub Purisevic sem þjálfari Víkinga eftir að hafa þjálfað hjá félaginu nánast samfleytt í 17 ár. Jón segist ekki vera að reyna að fylla í einhver fótspor þar. „Ég er ekki að reyna að fylla í skóna hans, ég er í mínum skóm."

„Hann gerði mjög góða hluti hérna og er augljóslega mjög góður þjálfari. Til þess að vera með gott lið þarftu að vera með góða stjórn, góða leikmenn og góða þjálfara. Það hefur verið hér og er hér. Ég er allt öðruvísi náungi; ég er töluvert yngri, bakgrunnur minn er allt öðruvísi og ég er örugglega með aðeins öðruvísi fótbolta. Ég er ekki að reyna að fara í stígvélin hans," segir Jón, en hvernig fótbolti má búast við frá Ólsurum í sumar?

„Við reynum að sækja á mörgum mönnum og verjast á mörgum mönnum. Við getum örugglega spilað hátt og langt, stutt á milli lína og í kringum liðin. Það eru alls konar möguleikar í þessu. Þú verður bara að koma í Vogana á laugardaginn og sjá hvernig við spilum."

Ólsarar mæta Þrótti Vogum í bikarnum á laugardaginn. „Það eru allir í Vogunum strákar sem ég þjálfaði í FH og Binni (þjálfari Þróttar) er fyrrum kærasti systur minnar. Ég þarf eiginlega að komast að því hvernig þetta endaði hjá systur minni og Binna, hvort ég þurfi að taka svolítið vel á honum eða ekki," segir Jón Páll í góðum gír.

Talandi um Þrótt Vogum þá er þar nýbúinn að semja Viktor Segatta, sóknarmaður sem Jón Páll talaði um að vilja fá fyrr á þessu ári. „Ég var bara að hækka verðmiðann á honum svo hann gæti fengið betur borgað. Hann er búinn að vera lengi hjá mér úti, ég var bara að hjálpa honum að hækka verðmiðann," sagði Jón Páll léttur og bætti við: „Gæinn var að kaupa sér íbúð. Ég gerði hann að atvinnumanni í Noregi og veit nákvæmlega hvað hann er búinn að vera með í árstekjur undanfarin ár."

„Nei, Viktor fór í Vogana. Hann býr í bænum og vinnur í bænum, og hann á örugglega eftir að standa sig vel þar."

Jón Páll er búinn að loka sjoppunni, engir fleiri leikmenn eru á leiðinni í Ólafsvík eins og staðan er núna. „Ég er með svo gott lið, við getum spilað 11 gegn 11 á æfingum og þá þarf ég ekki fleiri leikmenn. Ég með tvo góða markmenn, fullt af góðum varnarmönnum, ég með djúpa miðjumenn, sóknarsinnaða miðjumenn og svona slátturvélar eins og við köllum það (box-to-box miðjumenn). Ég er svo með gæja sem geta skorað og búið til mörk. Við erum með helvítið mikið af hráefnum í súpunni."

„Þegar þú spyrð hvernig fótbolta við ætlum að spila, við erum pottþétt að fara að spila mismunandi fótbolta á gervigrasinu í Ólafsvík rennandi blautu en ef við þyrftum að spila á Ísafirði núna á gulum ónýtum grasvelli. Við erum með möguleika."

Eins og annars staðar þá er tilhlökkunin mikil á Ólafsvík eftir langt undirbúningstímabil. „Ef þú kemur eitthvað nálægt fótbolta á Íslandi og ert ekki spenntur núna þá þarftu bara að fara á vertíð einhvers staðar. Það er að koma Verslunarmannahelgi og bikarkeppnin er varla byrjuð, þetta er ekki hægt."

Jón Páll er á þeirri skoðun að það þurfi að lengja keppnistímabilið á Íslandi. „Það sem við sjáum núna að ef við náum að spila þetta mót, án þess að það komi seinni bylgja af faraldrinum, þá á er það augljóst mál að við getum fjölgað í þessum deildum þannig að við getum farið að spila 30 deildarleiki á ári. Það er ekki hægt að vera með einhverja 27-28 ára gamla leikmenn sem hafa spilað 100 deildarleiki á ferlinum."

„Þetta eru alltof fáir leikir. Með fullri virðingu fyrir Fótbolta.net mótinu, Lengjubikar og þessum æfingleikjum - þetta er ekki það sama og að spila alvöru leiki. Nema að þú farir upp á Akranes, þá verður allt vitlaust. Ég á nokkur skyldmenni á Akranesi og síðast þegar ég fór í fermingarveislu á Akranesi þá rauk ég út þar því allt var vitlaust þar. Svo fórum við að spila æfingaleik þar á dögunum og þá átti að flauta af eftir 70 mínútur," sagði Jón Páll.

Um leikinn gegn Skagamönnum sagði Jón Páll jafnframt: „Liðin eru ekki búin að vera neitt að spila og svo fáum við loksins að spila. Menn eru svo æstir, völlurinn er blautur og þetta er nágrannaslagur. Þetta var enginn æfingaleikur. Skagamenn komu grjótharðir og við tókum bara á móti þeim. Þegar þetta var búið þá var þetta búið, ekkert mál og allir sáttir."

„Ég hafði mjög gaman að þessu og væri til í að vinna Þróttarana á laugardaginn. Ég væri nefnilega til í að fá annan leik upp á Skaga, ÍA og Víkingur Ólafsvík. Mér fannst þetta stórkostlega skemmtilegt, en mamma fór í hálfleik. Hún var ekki alveg að gúddera talsmátann sem hún heyrði. Reyndar sagðist hún vera þokkalega ánægð með það að hún sá mig bara hlæja."

Jón Páll segist alveg geta verið sjálfur heitur á hliðarlínunni, en hann ætlar sér að reyna að sleppa við það að fá rautt spjald í sumar. Það er á markmiðalistanum.

Ólsarar mæta Þrótturum í bikarnum næsta laugardag og hefja svo leik í deildinni gegn Vestra viku síðar. Hver veit nema þeir fái svo leik gegn Skagamönnum í bikarnum ef þeir komast áfram þar. Það væri alla vega ekki leiðinlegt.

Sjá einnig:
Miðjan - Jón Páll frá Pacman Pizza til Ólafsvíkur
Æfingaleikur: Ekki mikil vinátta í leik ÍA og Víkings Ó.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner