
„Við erum búnar að vera að fara yfir ákveðnar nýjar áherslur sem þjálfarateymið er að koma með. Fókusinn er á að vilja vera með boltann og skapa okkar egin færi. Þó að við höfum ekki skapað meira þá vorum við rólegri og yfirvegaðari með boltann en við höfum verið áður. Ég var ánægð með að sjá það. Þetta var fyrsti leikur og það verður gaman að sjá næsta leik," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins, á fréttamannafundi eftir 1-0 tapið gegn Ítalíu á laugardaginn.
Þorsteinn Halldórsson, nýr landsliðsþjálfari, hefur lagt mikla áherslu á að íslenska liðið haldi boltanum. Glódís er ánægð með það.
„Klárlega. Þetta er eitthvað sem er mjög mikilvægt fyrir okkur sem lið. Við höfum oft stjórnað leikjum með varnarleik en næsta skref er að geta gert bæði, stjórnað leikjum með og án bolta. Fótboltinn er að þróast þannig og við þurfum að fylgja þeirri þróun, Ég held að við séum með hóp í það núna."
Komin í eldri hópinn
Margir ungir leikmenn eru í hópnum að þessu sinni. „Við erum komnar með margar ungar inn. Ég finn það sérstaklega þegar ég er að detta inn í eldri hópinn, þá eru þær helvíti ungar sem eru að detta inn," sagði hin 25 ára gamla Glódís létt í bragði.
„Þær hafa margar spilað fyrir Steina og Breiðablik og þekkja hans áherslur og hvor aððra. Það er jákvætt fyrir landsliðið. Þá eru tengingarnar á vellinum náttúrulegar. Utan vallar er allaf gaman hjá okkur og þarf ekki að hafa áhyggjur af því," sagði Glódís en finnur hún fyrir aukinni ábyrgð núna? „Nei, ég hef alltaf fundið fyrir mikilli ábyrgð og viljað taka mikla ábyrgð. Ég finn ekkert meira. Ábyrgðin er alltaf til staðar."
Gott að spila með Cecilíu
Hin 17 ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir spilaði sinn annan landsleik á laugardaginn en hún stóð á milli stanganna þar. „Það er mjög gott að spila með Cecilíu. Hún talar mikið og er örugg í því sem hún er að gera. Hún stendur og fellur með sínum ákvörðunum sem er mjög mikilvægt. Það er mjög gaman að sjá hvernig hún er að koma inn í þetta."
Athugasemdir